8.9.2018 10:20

Varnarlínan langt norðan Íslands

Fremstu varnarlínan gegn sókn rússneskra kafbáta út á úthöfin er í Barentshafi ekki GIUK-hliðinu.

Um miðjan níunda áratuginn, þegar Ronald Reagan var Bandaríkjaforseti og John Lehman flotamálaráðherra Bandaríkjanna, var mótuð svonefnd Lehman-stefna á Norður-Atlantshafi. Inntak hennar var að varnir gegn flotaumsvifum Sovétmanna á svæðinu skyldu ekki miðast við GIUK-hliðið, þar er þrengingar í hafinu frá Grænlandi um Ísland til Bretlands heldur skyldi floti Bandaríkjanna og bandamanna þeirra sækja norður í áttina að Barentshafi og Kólaskaganum, heimahöfnum sovéska Norðurflotans.

Miklar umræður urðu um þessa stefnubreytingu. Liður í henni var endurnýjun á mannvirkjum og tækjabúnaði í Keflavíkurstöðinni. Smíði ratsjárstöðvanna á fjórum hornum Íslands var fjármögnuð af NATO innan ramma þeirra mannvirkjagerðar sem ráðist var í á norðurlsóðum á þessum árum.

Giuk_gap2Þessi mynd sýnir vel afstöðu GIUK-hliðsins gagnvart Kólaskaganum, hann teygir sig rauður fyrir austan Noreg. Nú ætlar flotastjórn Bandaríkjanna að draga varnarlínuna gegn skipaferðum frá Kólaskaga mun nær honum í Barentshafi.

Á tíunda áratugnum varð þróunin á þann veg að sovéski herflotinn varð að nær engu. Þegar Keflavíkurstöðinni var lokað árið 2006 töldu flotayfirvöld Bandaríkjanna ekkert tilefni til sérstaks viðbúnaðar á N-Atlantshafi og auðveldaði það Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra að loka stöðinni í innbyrðis átökum í Washington. Litið var á Rússa sem samstarfsaðila en ekki keppinauta um yfirráð á N-Atlantshafi.

Nú er annað uppi á teningnum eins og sjá má á þessari frétt sem birtist í dag á vefsíðunni www.vardberg.is í dag og lesa má hér .

Bandaríkjastjórn ýtti 2. flota sínum, Atlantshafsflotanum, úr vör að nýju í sumar. Í fréttinni segir að áform yfirstjórnar flotans séu að hann sigli í kjölfar Lehmans og dragi fremstu varnarlínuna gegn sókn rússneskra kafbáta út á úthöfin í Barentshafi, GIUK-hliðið sé ekki lengur helsta varnarlínan og varðstaða við siglingaleiðir milli Norður-Ameríku og Evrópu ekki meginhlutverk flotans.

Öll þessi mynd skýrist væntanlega í október þegar NATO-æfingin mikla, Trident Juncture, með þátttöku 40.000 manna liðs í Noregi hefst. Undanfari æfingarinnar verður hér á Íslandi og  fréttir birtast nú um miklar heræfingar sem teygja sig frá Íslandi til Kína.