1.3.2022 10:07

Varnar- og öryggismálaþekkingu verður að auka

Framlag prófessorsins minnir á nauðsyn þess að hér verði til hugveita eða fræðilegur vettvangur „sem sinnir rýni á öryggis- og varnarmálum“ svo að vitnað sé í orð Óla Björns Kárasonar.

Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Háskólann á Akureyri, var í Kastljósi ríkissjónvarpsins mánudaginn 27. febrúar og svaraði í raun spurningum út í hött þegar hann var spurður álits á stöðu mála í Úkraínu eftir innrásina þar. Hann hélt áfram að rökstyðja þá kenningu sína að upptök átakanna ætti að rekja til NATO fundar í Búkarest í apríl 2008 þegar ákveðið var að hafna aðild Úkraínu að NATO en halda dyrum bandalagsins opnum fyrir umsóknum síðar frá Úkraínu og Georgíu.

Prófessorinn er andvígur aðild Úkraínu að NATO eða eins og hann segir í Morgunblaðinu í dag (1. mars):

„Ég hef talið heppilegast að Úkraína verði áfram sjálfstætt ríki og eins konar stuðpúði (buffer state) á milli ESB og Rússlands og fái fullan aðgang að mörkuðum ESB og fjárfestingarstyrki. Ég sé ekki nauðsyn þess að Úkraína gangi í NATO, sérstaklega ef það leiðir til áframhaldandi átaka.“

Í þessu felst einskonar Finnlandiséring Úkraínu í þágu Rússa. Um kenningar af þessu tagi sagði Sauli Niinistö Finnlandsforseti nýlega í viðtali við þýska vikublaðið Der Spiegel:

„Ég skil ekki hvers vegna menn tengja þetta Úkraínu. „Finnlandiséring“ hljómar mjög illa í okkar eyrum. Hún minnir á áttunda áratuginn þegar margir finnskir stjórnmálamenn töldu sér til framdráttar að sýna Sovétmönnum sérstakan skilning og undirgefni – ef til vill meiri en Sovétmenn sjálfir vildu. Það er fullkomlega rangt að nota þetta sem fordæmi fyrir annað land.“

Að Hilmar Þór Hilmarsson líti fram hjá öllu sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur sagt á rúmri viku til að réttlæta innrás sína og blóðbað í Úkraínu og haldi sig fast við boðun 2008-kenningar sinnar og andúð á ákvörðunum á vettvangi NATO er í sjálfu sér fréttnæmt. Þetta er hins vegar falsfrétt hjá prófessornum. Innrásin í Úkraínu snýst ekkert um NATO. Hún á rætur í slavneskum stórveldisdraumi manns sem vill hverfa aftur til rússneska keisaradæmisins. Lesi menn ræður Pútins sjá þeir þetta.

Index.jpg-foFyrir utan að halda úti Utanríkismálastofnun (NUPI) reka Norðmenn rannsóknarsetur varnarmála (FFI) og fleiri rannsóknasetur og hugveitur á þessu sviði. Sömu sögu er að segja um fræðimennsku á þessu svið annars staðar á Norðurlöndunum.

Framlag prófessorsins minnir á nauðsyn þess að hér verði til hugveita eða fræðilegur vettvangur „sem sinnir rýni á öryggis- og varnarmálum“ svo að vitnað sé í orð Óla Björns Kárasonar, formanns þingflokks sjálfstæðismanna, í Morgunblaðinu í dag. Til verði þekkingarsetur á þessu sviði þar sem nýtt sé menntun sérmenntaðra manna.

Friðrik Jónsson sem sinnt hefur öryggis- og varnarmálum innan utanríkisþjónustunnar sat í Dagmála-þætti Morgunblaðsins með Óla Birni og tók undir þessi orð hans. Þótt innan Háskóla Íslands starfaði alþjóðastofnun og öflug umræða væri innan Varðbergs, áhugamannafélags um vestræna samvinnu þyrfti að gera.

Friðrik minnti á tilvist Varnarmálastofnunar í skamman tíma eftir brottför varnarliðsins. Hún var hvorki hugveita né rannsóknastofnun heldur sinnti stjórnsýslu sem eðlilegt var að fela Landhelgisgæslu Íslands. Eigi að leita fyrirmyndar innan íslenska stjórnkerfisins ber að líta til Öryggismálanefndar sem starfaði undir forsjá forsætisráðherra á níunda áratugnum.