20.5.2024 10:15

Varnaðarorð til frambjóðenda

Margir frambjóðendur tala undarlega um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, annaðhvort vegna vanþekkingar eða fyrir þeim vakir beinlínis að villa um fyrir kjósendum.

Bjarni Már Magnússon, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, sagði í grein á Vísi 17. maí 2024 að umræður frambjóðenda til embættis forseta Íslands á Stöð 2 að kvöldi 16. maí hefðu afhjúpað „vandræðalega vanþekkingu eða alvarlegt hugsunarleysi margra þeirra“ þegar kom að mikilvægum alþjóðamálum. Einkum yrði það að teljast nokkuð ískyggilegt að nokkrir þeirra tryðu þeim misskilningi að Ísland fylgdi hlutleysisstefnu í alþjóðamálum og að sérstök stefnubreyting hefði falist í stuðningi íslenskra stjórnvalda við vopnakaup til handa varnarbaráttu Úkraínu í tilvistarstríði landsins gegn tilefnislausri og ólöglegri innrás Rússlands.

Hér skal tekið undir þessi orð prófessorsins og því fagnað að hann veki máls á því hve undarlega margir frambjóðendur tala um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, annaðhvort vegna vanþekkingar eða fyrir þeim vaki beinlínis að villa um fyrir kjósendum með því að skapa það sem þjóðaröryggisráð hefur kallað „upplýsingaóreiðu“, blekkingartali í þágu annarlegra hagsmuna.

Bjarni Már segir í grein sinni að „fyrir þann sem ekki vissi betur gæti sá grunur vaknað að talpunktar Kremlar hafi skotið rótum í umræður íslenskra forsetaframbjóðenda. Þótt vitaskuld séu frambjóðendurnir ekki að flytja slíka talpunkta þá er það raunverulegt vandamál ef það hljómar þannig“.

Það er sjálfsögð krafa hjá Bjarnja Má að frambjóðendur til embættis forseta séu nægilega læsir á stöðuna í heimsmálum til þess að tala ekki með þeim hætti að grunsemdir vakni um að þeir átti sig ekki á hagsmunum eigin þjóðar gagnvart áróðri Kremlverja.

Screenshot-2024-05-20-at-09.47.40 Íslendingar eru ekki hlutlaus þjóð heldur stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu (NATO), öflugasta varnarbandalagi heims, fyrir 75 árum og hafa síðan 1951 haft tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Frá árinu 2009 hafa þeir átt aðild að varnarsamstarfi norrænu ríkjanna fimm, NORDEFCO, sem gengur nú í endurnýjun lífdaga eftir að öll ríkin fimm eru gengin í NATO.

Í liðinni viku var bandaríski flotaforinginn Doug G. Perry, yfirmaður flotastöðvar NATO, í Norfolk í Virginíu-ríki, hér á landi til þess að kynna sér aðstæður hér á landi. Í viðtali við Morgunblaðið 18. maí sagði hann Ísland vera „algjörlega ómissandi bandalagsríki í NATO og algjörlega ómissandi fyrir flotastöðina í Norfolk og verkefni hennar“. Verkefni flotastjórnarinnar er að verja bæði Atlantshafið og norðurslóðir.

Undanfarið hafa farið fram flota- og heræfingar á vegum NATO, Steadfast Defender 2024, þar sem m. a. liðsauki og hergögn voru flutt sjóleiðis frá Norður-Ameríku til Narvik í N-Noregi og þaðan landveg til Svíþjóðar og Finnlands.

Styrkur NATO felst í sameiginlegri varnarkeðju og þar er Ísland mikilvægur hlekkur. Tali einhverjir frambjóðendur til embættis forseta Íslands á þann veg að þeir átti sig ekki á þessu er það ekki aðeins áfall fyrir þá sem kosningarétt hafa heldur einnig alla sem treysta á að í orði og verki séu Íslendingar reiðubúnir til þess sameiginlega átaks sem er forsenda öflugra varna undir merkjum NATO.