9.5.2019 15:37

Varnaðarorð Baudenbachers vegna O3

Það er vegna ágreinings um túlkun á EES-samningnum sem utanríkisráðherra leitaði álits þessa gamalreynda lögfræðings og dómara.

Carl Baudenbacher sat í rúm 22 ár í EFTA-dómstólnum fyrir Liechtenstein. Hann var forseti dómstólsins í 15 ár. Hann sat þar í forsæti þegar dæmt var í Icesave-málinu og hefur í æviminningum lýst hvers vegna dómararnir dæmdu Íslandi í hag. Fyrir utan það mál hefur hann fjallað um margvísleg málefni sem snerta íslenska hagsmuni.

Í umræðunum um þriðja orkupakkann (O3) og innleiðingu hans hér á landi er þeirri fullyrðingu gjarnan slegið fram að úr því að málið skipti okkur svona litlu sé einfaldast að segja sig frá. Þegar á það er bent að um EES-skuldbindingar sé ræða sem verði að virða er blásið á það sem marklaus sjónarmið, úr því að við „græðum“ ekkert á þessu eigi bara að láta þetta lönd og leið.

Efta_presidentCarl Baudenbacher.

Það er vegna ágreinings af þessu tagi sem utanríkisráðherra leitaði álits þessa gamalreynda lögfræðings og dómara. Niðurstaða hans er skýr:

Þótt mögulegt sé að hafna upptöku nýrrar löggjafar ESB í EES-samninginn á lokastigum málsmeðferðar er O3 ekki mál af því tagi að réttlætanlegt sé að grípa til slíkra neyðarráðstafana.

Í álitsgerð Baudenbachers kemur fram að þar sem engum fordæmum sé til að dreifa leiki vafi á afleiðingum þess ef Íslendingar höfnuðu að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara sínum og kæmu þannig í veg fyrir upptöku O3 í EES-samninginn.

Þá veikir það málstað Íslands varðandi að fá undanþágur á þessu stigi að Íslendingar hafi til dæmis hvorki andmælt því að þriðji orkupakkinn væri EES-tækur né mótmælt þegar EES-ráðið kallaði eftir því í nóvember 2014 að upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn yrði flýtt. Þá hafi Íslendingar haft tækifæri til að leggja verulega til málanna í ákvörðunarferlinu og ekki staðið í vegi fyrir því að orkupakkinn yrði tekinn upp í EES-samninginn heldur aðeins beitt stjórnskipulegum fyrirvara.

Þarna er vikið að sjónarmiði sem hér hefur oftar en einu sinni verið haldið fram: aðgerðaleysi á utanríkisráðherravakt Gunnars Braga Sveinssonar, núv. varafomanns Miðflokksins, er í hrópandi ósamræmi við kveinstafi hans nú vegna O3.

Í álitsgerð Baudenbachers segir ennfremur að Íslendingar beri ákveðna skyldu gagnvart hinum EFTA-ríkjunum innan EES, Noregi og Liechtenstein. Þau hafi aflétt stjórnskipulegum fyrirvörum sínum og vænti því þess að Íslendingar geri slíkt hið sama ella öðlist þriðji orkupakkinn ekki gildi gagnvart neinu þeirra. Baudenbacher telur litlar líkur á að sameiginlega EES-nefndin fallist á að taka upp málið að nýju.

Ef Íslendingar draga sig út úr þriðja orkupakkanum gæti það því, að mati Baudenbachers, orðið til þess að aðildinni að EES-samningnum yrði, til lengri tíma litið, teflt í tvísýnu. Reynsla annarra Evrópuríkja utan EES sýni að Íslandi stæði þá aðeins til boða svonefnd „úkraínsk leið“ hefði það áhuga á samstarfi við ESB. Formlega væru deilumál þá leyst með gerðardómi þar sem ESB gæti áfrýjað málum einhliða til dómstóls Evrópusambandsins.

Carl Baudenbacher segir í niðurlagi samantektar álitsgerðar sinnar: „Með tilliti til alls þessa verður að draga þá ályktun að fyrir hendi sé sá möguleiki að hafna upptöku nýrra laga ESB í EES-rétt. Hins vegar er það mál sem hér er til umfjöllunar ekki viðeigandi tilefni til að grípa í neyðarhemilinn.“

Ekkert af þessu er nýtt í umræðum um O3 en mat EFTA-dómarans fyrrverandi vegur þyngra en þeirra sem ekki hafa brotið ákvæði EES-samningsins til mergjar í dómstólnum í Lúxemborg.

Þegar látið er eins og einsdæmi sé að fá álit sérfróðs erlends manns á máli sem er til umræðu á íslenskum stjórnmálavettvangi hljóta menn að tala gegn betri vitund. Hitt er einkennilegast að slík viðhorf séu kynnt til sögunnar af O3-andstæðingum sem hafa látið norskan minnihlutahóp leiða sig í ógöngur í málinu svo að ekki sé sagt, draga sig á asnaeyrunum.