Varla sjónarmunur í formannskjöri
Líklega er sjaldgæft, hvert sem litið er, að flokksformaður sé í þeirri stöðu sem Guðrún er núna. Fylgja henni bestu óskir um farsæld í ábyrgðarmiklu starfi.
Mestu íslensku lýðræðishátíðinni fyrir utan almennar kosningar, 45. landsfundi Sjálfstæðisflokksins, lauk síðdegis sunnudaginn 2. mars. Því var spáð fyrir fundinn að þar yrði mjótt á munum millu frambjóðenda til formanns, þingmannanna Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og Guðrúnar Hafsteinsdóttur. Sú spá reyndist rétt.
Formannskjör hófst um 11.30 og niðurstaðan var birt á mbl.is klukkan 13.18. Alls greiddu 1862 atkvæði. Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin formaður með 931 atkvæði, 50,11% atkvæða, en Áslaug Arna hlaut 912 atkvæði, 49,09%. Það skildu aðeins 19 atkvæði á milli þeirra.
Samkvæmt skipulagsreglum flokksins gildir sú regla um kosningar formanns, varaformanns og ritara Sjálfstæðisflokksins að hljóti enginn meira en helming gildra atkvæða skuli á ný efnt til atkvæðagreiðslu milli þeirra tveggja, er flest atkvæði hlutu eða þeirra, sem efstir og jafnir urðu, séu þeir fleiri en tveir. Telst sá kjörinn, sem flest atkvæði hlýtur. Hefði Guðrún fengið tveimur atkvæðum færra hefði reynt á þessa reglu og líklega komið til endurkjörs.
Myndin sýnir hluta landsfundarfulltrúa við formannskjör í Laugardalshöll í hádegi 2. mars 2025.
Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur verið kjörinn á landsfundi síðan 1961 og hefur aldrei munað svo litlu milli frambjóðenda í 64 ár. Líklega er sjaldgæft, hvert sem litið er, að flokksformaður sé í þeirri stöðu sem Guðrún er núna. Fylgja henni bestu óskir um farsæld í ábyrgðarmiklu starfi.
Í varaformannskjöri greiddu 1750 atkvæði og voru 1746 þeirra gild. Þar kepptu einnig tveir þingmenn. Jens Garðar Helgason hlaut 928 atkvæði eða 53,2%, en Diljá Mist Einarsdóttir hlaut 758 atkvæði eða 43,4%.
Fyrir utan lítinn atkvæðamun við formannskjörið vekur einnig athygli við þetta val á forystu Sjálfstæðisflokksins að bæði formaðurinn og varaformaðurinn koma úr kjördæmum utan höfuðborgarsvæðisins. Guðrún úr Suðurkjördæmi og Jens Garðar úr Norðausturkjördæmi.
Þetta er í fyrsta sinn frá 1937 í 95 ára sögu flokksins sem hvorugur þessara forystumanna er af höfuðborgarsvæðinu. Ólafur Thors var alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 1926 til 1959 og Reyknesinga 1959–1964 og formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1934 til 1961. Magnús Guðmundsson þingmaður Skagfirðinga var varaformaður í tíð Ólafs frá 1934 til 1937. Þorsteinn Pálsson úr Suðurkjördæmi var formaður 1983 til 1991 en Reykvíkingar varaformenn, Friðrik Sophusson og Davíð Oddsson.
Bjarni Benediktsson var þingmaður SV-kjördæmis, höfuðborgarsvæðisins, í 16 ára formannstíð sinni með þingmenn Reykvíkinga sem varaformenn og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur úr Norðvesturkjördæmi frá 2018.
Það er í Reykjavík sem mestu skiptir fyrir Sjálfstæðisflokkinn að styrkja sig á næstu mánuðum til að bjarga höfuðborginni undan stjórnleysi fimmflokka. Nýi flokksformaðurinn talaði fyrir því á landsfundinum að flokksmenn almennt kæmu að formannskjöri. Nú ætti hún að beita sér sem fyrst fyrir leiðtogaprófkjöri í Reykjavík með umboði fyrir þann sem sigrar til að velja með sér meðframbjóðendur. Það yrði til að blása lífi í flokksstarfið í höfuðborginni. Daufara verður það varla.