17.6.2023 10:26

Varðveisla Múlakots

Enn er þörf á stórátaki til að ljúka endurreisn gamla bæjarins í Múlakoti. Staðurinn hefur mikið aðdráttarafl.

Þjóðhátíð má fagna á margvíslegan hátt. Lagt er mat á stöðu þjóðar á líðandi stund – þar þurfum við Íslendingar ekki að kvarta í samanburði við aðra. Landið og þjóðlífið dregur að sér fleiri en ráðið er við með góðu móti og við viljum grisja þá sem vilja nýta auðlindir okkar til grænnar verðmætasköpunar. Framtíðin er óráðin eins og áður og hér skal ekki spáð í hana heldur litið aðeins inn í fortíðina.

Í gær (16. júní) var haldinn aðalfundur Vinfélags gamla bæjarins í Múlakoti í Fljótshlíð. Tilgangur félagsins er að styðja sjálfseignarstofnunina Gamli bærinn í Múlakoti til að endurbæta, varðveita og sjá um rekstur gamla bæjarins í Múlakoti. Þá skal stefnt að því að komið verði fyrir í húsinu myndum og munum sem tengjast sérstaklega sögu hússins og e. t. v. fleiru sem vel þykir fara innan húss og utan.

Sjálfseignarstofnunin Múlakot var stofnuð 8. nóvember 2014 til að tryggja eftir mætti varðveislu menningarminja og minjalandslags í Múlakoti. Þar er um að ræða bæjarhúsin sem risu árin 1897-1946 og innbú þeirra, rústir hesthúss, hlöðu og súrheysturns, málarastofu og verkstæði Ólafs Túbals, listigarð Guðbjargar Þorleifsdóttur og lysthús auk annarra minja sem kunna að tilheyra bæjarkjarnanum.

IMG_5360Elsta hluta gamla bæjarins í Múlakoti hefur verið bjargað og er myndin tekin innan dyra þar.

Eigendur Múlakots, hjónin Sigríður Hjartar og Stefán Guðbergsson afhentu sjálfseignarstofnuninni til eignar án endurgjalds þau mannvirki og minjar sem þarna eru talin ásamt afmarkaðri lóð.

Skyldi stefnt að því að minjarnar yrðu aðgengilegar og á staðnum yrði sýning um sögu bæjarins, íslenska málaralist sem honum tengdist, upphaf hótelrekstrar í sveit á Íslandi og sögu listigarðs Guðbjargar Þorleifsdóttur.

Síðan hefur sjálfseignarstofnunin staðið fyrir framkvæmdum sem bjargað hafa elsta hluta gamla bæjarins og endurreisn garðsins sem fékk lysthúsið sitt á sinn stað fyrir fáeinum vikum.

Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar þar sem sitja fulltrúar ábúenda í Múlakoti, sveitarstjórnar Rangárþings eystra og Skógasafns dregur vagninn í þessu mikilvæga endurreisnarstarfi en vinafélagið léttir undir með henni. Þá á Múlakot víða velgjörðarmenn sem lagt hafa mikilvægan skerf að mörkum auk þess sem opinberar styrkveitingar til húsafriðunar hafa nýst vel í nánu samstarfi við Minjastofnun.

Skógræktin keypti árið 1990 13 ha reit í Múlakoti þar sem hún hafði fengið aðstöðu til ræktunar hjá eiganda jarðarinnar. Þar er nú trjásafn sem kallað er þjóðskógur á vefsíðu skógræktarinnar. Svæðið er umhirðulaust og hefur ekki verið brugðist við ítrekuðum ábendingum vinafélagsins um nauðsyn úrbóta.

Enn er þörf á stórátaki til að ljúka endurreisn gamla bæjarins í Múlakoti. Staðurinn hefur mikið aðdráttarafl sem mundi margfaldast með meiri samvinnu einkaaðila og opinberra. Þjóðskógur stendur ekki undir nafni sé engin rækt lögð við hann og kannski beinlínis varasamt að fara um hann.

Í Múlakoti mætti að nýju skapa fallegan áfangastað skammt frá Markarfljóti í skjóli Eyjafjallajökuls. Hér er vefsíðan mulakot.is

Gleðilega þjóðhátíð!