Vanvirðing við skólaminjar og verk Sigurjóns
Það er ekki einleikið hvaða afstöðu Dagur B. Eggertsson og meirihluti hans tekur gagnvart verndun skólaminja og viðhaldi á listaverki Sigurjóns Ólafssonar.
Af mikilli alúð hafa áhugamenn, kennarar og Hollvinafélag Austurbæjarskóla komið upp skólaminjasafni í skólanum. Skólamálaráð borgarinnar með stjórnanda skólamála hennar ákvað að gera atlögu að safninu. Það hefur fengið inni í rjáfri í skólahússins sem var reist af miklum metnaði á sínum tíma með svið- og kvikmyndasal, sundlaug og íþróttasal.
Þegar ljóst var í hvert óefni stefndi með safnið sneri holvinafélagið sér til borgarstjóra með bréfi 19. febrúar 2021 og fór þess á leit að ákvörðunin um að breyta þeim hluta af risi Austurbæjarskóla sem hýsir skólaminjasafnið í íslenskuver fyrir erlenda nemendur verði breytt.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri svarar þessu bréfi 31. mars 2021 og segir:
„Það er dýrmætt að sjálfboðaliðar láti sig sögu og menningu Reykjavíkurborgar varða og eru Hollvinasamtökunum (svo!) færðar mínar bestu þakkir fyrir framlag sitt til að varðveita sögu skólastarfs í Reykjavík. Það er þó viðhorf Reykjavíkurborgar að skólabyggingar í borginni fái að þjóna nemendum og að nemandinn sé í öndvegi í nútíð og framtíð og að safnmuni beri að geyma á söfnum. Því hefur verið að menningar- og ferðamálasvið ásamt skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar fari yfir skólamunasafnið í Austurbæjarskóla í samvinnu við Hollvinafélagið og taki til varðveislu það sem máli skiptir fyrir sögu menntunar og skólastarfs í Reykjavík.“
Þarna birtist sama kuldalega viðhorf í garð þessa safns og hjá Helga Grímssyni, sviðsstjóra skóla- og frístundamála borgarinnar, á mbl.is þriðjudaginn 24. febrúar 2021. Þetta safn væri ekki á forræði borgarinnar heldur áhugamanna. Mátti skilja að þetta skipti því borgina engu. Sama segir í raun í bréfi borgarstjórans því að hann boðar að af rausn sinni muni fulltrúar borgarinnar hirða það úr safninu sem þeim kunni að þykja einhvers virði, ásetningur borgarinnar er ekki að úthýsa safninu úr Austurbæjarskóla heldur tæta það í sundur.
Þetta virðingarleysi yfirvalda borgarinnar
undir forystu Dags B. Eggertssonar í garð menningarverðmæta er því miður ekki
eindæmi.
Undir þessari ljósmynd af læagmynd Sigurjóns Ólafssonar á vef Listasafns Reykjavíkur stendur að um „safneign“ sé að ræða. Þegar spurt er hvort ekki eigi að viðhalda verkinu segir skrifstofa skipulagsfulltrúa borgarinnar að verki sé ekki í Reykjavíkurborgar.
Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara,
skrifaði grein í Morgunblaðið þriðjudaginn 30. mars og lýsti dapurlegum
samskiptum sínum við embættismenn borgarinnar vegna lágmyndarinnar Saltfiskstöflun
sem staðið hefur skammt frá Sjómannaskólanum í Reykjavík síðan árið 1953 þegar
því var valinn þar staður af Fegrunarfélagi Reykjavíkur. Hefur listaverkið síðan
verið í umsjá Reykjavíkurborgar. Verkið liggur undir skemmdum og hefur Birgitta
gengið eftir svörum frá umsýslumönnum borgarinnar hvort huga eigi að viðhaldi
þess. Í mars 2021 fékk hún þetta kuldalega svar frá skrifstofu skipulagsfulltrúa
Reykjavíkur: „listaverkið Saltfiskstöflun er ekki í eigu Reykjavíkurborgar“. Síðan
ekki söguna meir. Á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur birtist hins vegar ljósmynd af lágmyndinni og þar stendur að hún sé „safneign“.
Skólamunasafn áhugamanna á að fjarlægja af stað sem hæfir ekki til kennslu af því að borgin setur nemendur í fyrsta sæti (!). Safnið á að tæta í sundur af því að embættismenn borgarinnar vita betur en áhugamenn hvað á heima í svona safni. Eitt af lykilverkum Sigurjóns Ólafssonar liggur undir skemmdum í umsjá Reykjavíkurborgar af því að hún á það ekki! Undir forystu Dags B. og félaga hreykir borgin sér með alls kyns frösum sem eiga að sýna hollustu hennar við menningu og listir. Verkin segja hins vegar aðra sögu í þeim efnum eins og flestu sem snýr að þessum meirihluta við stjórn borgarinnar.