11.11.2019 11:00

Vantraust á Sigmund Davíð og Gunnar Braga

Tillaga Flokks fólksins er vantraust á orð Sigmundar Davíðs og Gunnars Braga um stöðu Íslands gagnvart ESB.

Þegar hitinn var sem mestur í miðflokksmönnum á alþingi vegna þriðja orkupakkans vorið 2019 boðaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flokksformaður að hann mundi flytja tillögu til þingsályktunar um að afturkalla umsókn Íslands um aðildarviðræður við ESB. Á árinu 2015 hafði hann þó ásamt Gunnari Braga Sveinssyni, varaformanni Miðflokksins, fullyrt að þeir félagar hefðu tryggilega gengið frá því að í Brussel litu ESB-menn ekki á Ísland sem ESB-umsóknarríki.

Flokksráð Miðflokksins kom saman til fundar laugardaginn 9. nóvember 2019. Af því tilefni segir Gunnar Bragi Sveinsson í Morgunblaðinu í dag (11. nóvember): „Stóra málið var kannski það að allar umræður á fundinum voru í þá veru að mikilvægt væri að Miðflokkurinn héldi áfram að hafa þá sérstöðu umfram hina stjórnmálaflokkana að elta ekki endilega tíðarandann og vera samkvæmur sjálfum sér.“

823175Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáv. forsætisráðherra, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í Brussel 9. júlí 2015. Var það fyrsti fundur forsætisráðherra með forystumönnum ESB eftir að ríkisstjórn hans tilkynnti í mars 2015 að Ísland væri ekki lengur ESB-umsóknarríki. Sagði Sigmundur Davíð að fundurinn hefði verið „mjög góður“.

Það er líklega vegna áhuga miðflokksmanna á að vera samkvæmir sjálfum sér að þeir hafa ekki lagt fram neina tillögu á alþingi um að draga ESB-umsóknina til baka. Þeir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi hafa séð að það gekk ekki upp að segjast annars vegar hafa tryggt að Ísland sé ekki ESB-umsóknarríki og hins vegar leggja til við alþingi að tryggja að svo sé ekki.

Þingmenn Flokks fólksins hafa nú stolið glæpnum frá Miðflokknum í ESB-umsóknarmálinu. Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson vilja að alþingi álykti „að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu“.

Segir í greinargerð með tillögunni að ekki sé „ljóst hvort Evrópusambandið líti svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka eða hvort sambandið hafi einungis fært Ísland af lista yfir umsóknarríki til málamynda en telji umsóknina enn fullgilda“. Þingsályktunartillagan sé lögð fram „til þess að tryggja að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu“. Tillagan er vantraust á orð Sigmundar Davíðs og Gunnars Braga um stöðu Íslands gagnvart ESB.

Þegar sótt var um aðild að ESB 2009 var engu líkara en margir teldu að taka mætti upp ESB-þráðinn eins og skilið var við hann árið 1992, það er þegar önnur EFTA-ríki í EES-viðræðunum en Ísland ákváðu að sækja um aðild að ESB. Það var reginmisskilningur. ESB hafði sett aðlögunarskilyrði sem íslenskir ESB-aðildarsinnar töldu sig ekki þurfa að virða og koma það þeim í koll.

Frá 2015 hafa skilmálar ESB gagnvart nýjum aðildarríkjum enn breyst og Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafnaði á dögunum viðræðum um aðild við Norður-Makedóníu og Albaníu af því að hann vildi þrengja nálaraugað enn frekar.

Brýnt er að íslensk stjórnvöld fái endanlega úr því skorið hvað er að marka af því sem Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi sögðu árið 2015 um stöðu Íslands gagnvart ESB. Stjórnmálamennirnir sem leggja höfuðáherslu á að vera sjálfum sér samkvæmir hljóta að standa við það sem þeir fullyrtu eftir fundina í Brussel á árinu 2015 þegar þeir komu fram fyrir Íslands hönd sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Í raun snýr þetta mál allt saman frekar að ábyrgð íslenskra stjórnmálamanna og hvort unnt er að treysta þeim en því sem ESB-embættismenn segja í Brussel.