15.12.2017 10:46

Vanþekking nýs þingmanns á varnarmálum

Ekkert skref hefur verið stigið vegna kafbátaleitar án opinberra umræðna. Allir sem vilja vita kunna því skil að þróunin er á þann veg í höfunum umhverfis Ísland að umsvif rússneskra kafbáta eru meiri en áður.

Nýkjörið alþingi kom saman í gær. Forsætisráðherra kynnti stefnu ríkisstjórnarinnar í beinni útsendingu frá þingi í gærkvöldi. Þrír fulltrúar átta flokka eða samtals 24 þingmenn af 63 þingmönnum fluttu ræður á tveimur klukkustundum og tuttugu mínútum eða töluvert lengur en ætlað var. Í dag (15. des.) bregður svo við að Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, birtir kafla úr ræðu sinni í þingmannahorni Morgunblaðsins. Kaflann um utanríkismál.

Helga Vala vék meðal annars að ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Ákvörðunin vakti reiði meðal arabaríkja sem minnti frekar á storm í tebolla en skot „í hjartastað friðarumleitana milli Ísraela og Palestínumanna“ eins og Helga Vala orðaði það. Forystumenn Hamas öfgasamtakanna hvetja til ófriðar vegna tilkynningar forsetans um framkvæmd samþykktar sem Bandaríkjaþing gerði fyrir 22 árum. Tal um „friðarumleitanir“ vegna Ísraels í þessum heimshluta er öfugmæli þegar litið er þess sem gerist í Sýrlandi og Jemen svo að dæmi séu tekin.

Þá sagði Helga Vala:

„Það vekur óneitanlega eftirtekt að á sama tíma og fulltrúar íslenskra stjórnvalda taka svona mildilega til orða [um ákvörðun Trumps] eru samþykkt lög á Bandaríkjaþingi þess efnis að bandaríski sjóherinn fái 1,5 milljarða króna fjárframlag til að gera endurbætur á flugskýlum Bandaríkjahers hér á Íslandi á næsta ári. Þessi frétt vekur athygli enda hafði gleymst að kynna landsmönnum að búið væri að heimila hersetu á Íslandi á nýjan leik, og það í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.“

Það var í febrúar 2016 sem fjárlagafrumvarp bandaríska varnarmálaráðuneytisins birtist með tillögu um 21,4 m dollara fjárveitingu til að endurbæta tvö mannvirki á Keflavíkurflugvelli svo að þau mætti nýta fyrir P-8A Boeing kafbátaleitarvélar. Breyta þarf dyraumbúnaði svo að vélar af þessari gerð komist inn í flugskýli á vellinum sem var notað fyrir Orion-leitarvélarnar á sínum tíma, þá þarf að breyta rafbúnaði í skýlinu, setja nýjar merkingar á flughlaðið og styrkja gólfið í skýlinu auk þess að setja upp þvottabúnað til að verja flugvélarnar gegn tæringu.

Nú hefur Donald Trump samþykkt fjárgreiðslur vegna þessa verkefnis. Að segja þetta jafngilda því að „herseta“ hafi verið heimiluð án kynningar hér á „nýjan leik“ er í besta falli misskilningur eða vanþekking. Ekkert skref hefur verið stigið í þessu máli án opinberra umræðna. Allir sem vilja vita kunna því skil að þróunin er á þann veg í höfunum umhverfis Ísland að umsvif rússneskra kafbáta eru meiri en áður. NATO-ríkin vilja auka eftirlit á N-Atlantshafi.

Þeir sem hafa svipuð viðhorf til öryggismála og birtust í fyrstu þingræðu Helgu Völu Helgadóttur hafa jafnan talað á þann veg að Íslendingar eigi ekki að aðhafast neitt vegna þróunar öryggismála í nágrenni sínu – þau séu vandamál annarra, ekki síst kafbátaferðir.

Á árunum sem liðin eru frá því að varnir í GIUK-hliðinu settu svip sinn á viðbúnað í kalda stríðinu hefur orðið gjörbreyting að því leyti að hagsæld Íslendinga ræðst meira af öryggi strengja á hafsbotni en nokkru sinni fyrr. Óttinn við að reynt verði að lama þjóðlíf einstakra ríkja með árás á slíka strengi vex í samræmi við gildi þeirra. Eftirlit með kafbátum og öðrum skipum í nágrenni við þessa strengi er lykilþáttur í íslensku þjóðaröryggi.