19.12.2018 12:12

Vandræði forsætisnefndar alþingis

Af þessum orðum sést hve tvíbent er að veita þingnefnd stjórnsýslulegt vald. Hlaupi hún á sig á bara að bjarga málinu í horn.

 

Vandræðagangur forsætisnefndar alþingis undir forystu Steingríms J. Sigfússonar vegna Klausturmálsins svonefnda er dæmalaus. Steingrímur J. réð ekki við tilfinningar sínar og sagði meðal annars fimmtudaginn 29. nóvember „Mér líður mjög illa. Mér finnst þetta hryllilegur atburður [...] Þannig að þetta er óskaplega dapur dagur.“

Að forseti alþingis tali á þennan veg um orð þingmanna er sem betur fer ekki algengt en Steingrímur J. kallar ekki allt ömmu sína þegar yfirlýsingar eiga í hlut. Hann sagði til dæmis Svavar Gestsson, samningamann sinn í Icesavc-málinu, stefna að „glæsilegri niðurstöðu“ í viðræðum við Breta vorið 2009. Allir vita hvernig því máli lyktaði  – allt annað en glæsilega fyrir Svavar.

21491-405-1280x853-Forsætisnefnd alþingis.

Í Klausturmálinu gleymdi forsætisnefnd alþingis stjórnsýslulegum meginreglum þegar hún ákvað að vísa því til siðanefndar alþings.

Blaðamaðurinn Jakob Bjarnar ræðir þessi vandræði við Steingrím J. og á vefsíðunni visir.is segir hann í dag (19. desember):

„Þetta er mjög óvenjulegt og óvenjuleg staða sem stjórnmálamenn, sem auðvitað hafa málfrelsi og sínar skoðanir, eru settir í. Það veldur okkur engum vandræðum sem forsætisnefnd gagnvart störfum þingsins og innri málum. Þar er ekki um neitt [stjórnsýslulegt] úrskurðarvald að ræða nema forseti Alþingis hefur auðvitað mikil völd, hann ræður ef ágreiningur er uppi og svo framvegis.“

Þótt forsætisnefndin viðurkenni lögbrot sitt og Klausturmálið sé ekki komið til siðanefndar alþingis er Steingrímur J. staðráðinn í að koma því þangað. Hann segir: „...við finnum leiðir til þess að halda þessu máli áfram, það verða fundnar leiðir til þess og koma því til siðanefndar [...] við þurfum að setjast yfir það strax í byrjun janúar. Hvaða leiðir eru færastar í þessu, að kalla eftir að gera þurfi breytingar á þingskapalögunum og kannski á siðareglunum sjálfum“.

Af þessum orðum sést hve tvíbent er að veita þingnefnd stjórnsýslulegt vald. Hlaupi hún á sig á bara að bjarga málinu í horn hvað sem tautar og raular, með lagabreytingu telji forseti alþingis það nauðsynlegt.

Steingrímur J. stígur varlegar til jarðar þegar hann er spurður um mál Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, vegna upplýsinga um kynferðislega áreitni hans. Þingforsetinn segir meðal annars: „Og mér finnst ég einhvers staðar hafa séð það að nefnd Samfylkingarinnar hafi gefið það út að hún ætli ekki að hafa forgöngu um það.“

Af þessum orðum má ráða að vegna þess að innan Samfylkingarinnar vilji menn ekki ræða þetta mál opinberlega komi það ekki til kasta forsætisnefndar alþingis eða siðanefndar. Steingrímur J. slær að vísu varnagla í samtalinu við Jakob Bjarnar og bendir á að allir sem mál varða geti sent erindi til forsætisnefndar.

Þessum hneykslismálum er ekki lokið á vettvangi alþingis og því lengra sem þingmenn sjálfir teygja sig inn í þau því meira verða þau þeim til vandræða – einkum ef lög og almennar leikreglur eru ekki hafðar í heiðri.