Vandinn er í breska þinghúsinu
Innan og utan Bretlands er réttilega spurt: Hvað vill breska þingið? Það er ekki nóg að þingmenn segi nei og viti svo ekki hvað við tekur.
Tillögu ríkisstjórnar Theresu May, forsætisráðherra Breta, um viðskilnað við Evrópusambandið (Brexit) var hafnað með 230 atkvæða mun (202 með, 432 á móti) í neðri deild breska þingsins um kvöldmatarleytið þriðjudaginn 15. janúar. Bresk ríkisstjórn hefur ekki fengið slíka útreið á þingi svo elstu menn muna.
Strax í desember og raunar fyrr lá fyrir að May gæti ekki tryggt meirihluta á þingi fyrir tillögu sinni. Þá ákvað hún hins vegar að fresta atkvæðagreiðslu og lét sem sér kynni að takast að bæta vígstöðu sína með frekari viðræðum við ESB.
Allt kom fyrir ekki og nú er allt í uppnámi. Í
þeim Evrópulöndum þar sem stjórnmálamönnum vex ekki í augum að stofna til
samstarfs við gamalgróna andstæðinga séu hagsmunir þjóðarinnar taldir í húfi,
til dæmis í Þýskalandi og hér, eiga menn erfitt með að skilja að þingmenn allra
flokka í Bretlandi geti ekki sameinast um útgönguleið gagnvart ESB.
Úrslitin í atkvæðagreiðslunni um Brexit kynnt 15. janúar 2019.
Innan og utan Bretlands er réttilega spurt: Hvað vill breska þingið? Það er ekki nóg að þingmenn segi nei og viti svo ekki hvað við tekur. Staðan nú er aðeins vatn á myllu Brusselmanna og þeirra sem herða á kröfunni um að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu á ný í Bretlandi um tengslin við ESB.
Þeir sem fylgjast náið með framvindu mála í Bretlandi lýsa undrun yfir hve hratt óskinni um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu vex fylgi meðal almennings. Nú segja stjórnmálaskýrendur að geri Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, kröfuna um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu að sínu baráttumáli færi hún á flug. Hann þori það hins vegar ekki af ótta við útgöngusinna innan eigin flokks. – Gengið er að því sem vísu að úrsögn úr ESB yrði nú hafnað af meirihluta Breta í þjóðaratkvæðagreiðslu.
David Cameron, þáv. forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, hóf þessa vegferð árið 2016 í þeim tilgangi að binda enda á deilur um ESB innan Íhaldsflokksins. Flokkurinn logar nú stafna á milli vegna afstöðunnar til ESB – ekki aðeins flokkurinn heldur breska þingið og allt þjóðlífið.
Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki leið til að ljúka neinu máli. Þær má nota til að beina ágreiningsmálum inn á ákveðnar brautir til úrvinnslu. Í þessu tilviki hefur úrvinnslan gjörsamlega mistekist og gert illt verra.
Undirrót breska vandans er að finna í þinghúsinu. Þingmenn kenna May um skort á sveigjanleika. Hún hefur á hinn bóginn skilað sínu, samningi um leið Breta úr ESB, þeim besta sem hún náði. Meistarastykki hennar er kastað með skömm án þess að þeir sem það gera þori að sameinast um eitthvað annað.