12.10.2021 11:58

Valdatafl með gasi

Þvert á móti blasir við að Vladimir Pútin Rússlandsforseti og félagar ætla að nýta sér orkuskort Evrópu í pólitískum tilgangi.

Um þessar mundir er verð á jarðgasi í Evrópu um fimm sinnum hærra en það var fyrir aðeins einu ári. Hagtölur frá Eurostat sýna að jarðgas stendur að baki 32,1% af orkuneyslu venjulegs heimilis í Evrópu og er því mikilvægasti orkugjafi tug milljóna heimila ekki aðeins til húshitunar heldur einnig við matargerð.

Gasverðið hefur ekki aðeins rokið upp úr öllu valdi rétt fyrir kaldasta tíma ársins á norðurhveli heldur eru evrópskar gasbirgðir minni en þær ættu að vera á þessum árstíma.

Samhliða hækkun á gasverði hækkar verð á raforku. Í Morgunblaðinu í dag (12. október) er skýrt frá því að hollenska álfyrirtækið Aldel hafi lokað kerskála sínum í hollensku hafnarborginni Delfzijl vegna hækkandi raforkuverðs. Verði skálinn lokaður fram á nýtt ár hið minnsta.

Íslenskt orkuverð lýtur lögmálum markaðarins hér og þeim samningum sem gerðir eru við stórkaupendur í samræmi við EES-reglur til að tryggja samkeppni og gegnsæi.

Innan ESB búa menn hins vegar við þær aðstæður að stærsti seljandi jarðgass til landa sambandsins er rússneska ríkiseinokunarfyrirtækið Gazprom. Í fyrra var markaðshlutdeild Gazprom í sölu jarðgass innan ESB 45,5%, Norðmenn seldu þangað 20% og Alsír 12%. Talið er líklegt að markaðshlutdeild Rússa verði meira en 50% í ár. Ástandið er svona áður en nýja rússneska gasleiðslan, Nord Stream 2, kemur til sögunnar.

PhotocreoBednarek_AdobeStock_naturalgas_080221Gazprom verður ekki sakað um að standa ekki við gerða magnsamninga. Við þær aðstæður sem nú hafa skapast vill fyrirtækið hins vegar ekki létta neitt undir með öruggum viðskiptavini. Þvert á móti blasir við að Vladimir Pútin Rússlandsforseti og félagar ætla að nýta sér orkuskort Evrópu í pólitískum tilgangi.

Vladimir Tjisov, sendiherra Rússa í Bretlandi, sagði í samtali við The Financial Times að Rússar gætu bætt meira gasi í leiðslurnar til Evrópu ef ríkisstjórnirnar þar hættu að líta á Rússa sem „geópólitíska óvini“. Hann sagði:

„Að lokum snýst þetta um hvernig menn tala. Yrði breytt um orð og ekki talað um „fjandmann“ heldur „samstarfsmann“ yrði þetta miklu auðveldara. Þegar ESB öðlast pólitískan vilja til að gera þetta vita allir hvar okkur er að finna.“

Danska blaðið Jyllands-Posten segir í leiðara í dag að ekki þurfi að velta fyrir sér neinu samsæri að baki háu gasverði við blasi að gasinu sé beitt til pólitísks þrýstings sem árétti aðeins hve illa Evrópa standi að vígi, algjörlega háð innfluttri orku. Blaðið varar við að látið sé undan rússneskum þrýstingi, til dæmis varðandi tafarlausa tengingu við Nord Stream 2 en segir að því miður ríki vafi um viðbrögð Þjóðverja.

Einkennilegt er að í stjórnarviðræðum hér sé við þessar aðstæður, þegar þörfin fyrir hreina orku vex jafnt og þétt, tekist á um hvort virkja skuli meira af grænni orku. Það eru ekki loftslags- og náttúruvinir sem beita sér á þann hátt. Eitthvað annað býr að baki og óhreinlyndið er meira en hjá Pútin og félögum sem viðurkenna þó að þeir noti gasið í valdatafli.

.