13.7.2019 11:09

Valdabaráttunni í Brussel líkt við brexit

Raunar þurfum við Íslendingar hvorki að fara til Brussel né London til að sjá að umræður sem tengjast ESB fara algjörlega úr böndunum.

Valdabaráttan innan ESB um þessar mundir snýst ekki aðeins um einstakar persónur þótt leikendur séu nafngreindir og konur skipti þar miklu.

Þetta er til dæmis áréttað í leiðara Jyllands-Posten í dag (13. júlí) sem ber fyrirsögnina: Magtspillet i Bruxelles begynder at ligne brexit. Kan man ikke tage sig lidt sammen? Valdabaráttan í Brussel tekur að líkjast brexit. Geta menn ekki andað rólega?

Blaðið tekur fram að enginn vafi leiki á stuðningi þess við að Danir séu aðilar að ESB, það skipti sköpum fyrir þá. Vissulega séu alltaf einhverjir andvígir ESB-samstarfinu hver svo sem rökin séu. Þeir hljóti að gleðjast yfir því sem nú gerist í Brussel. Ursula von der Leyen, fyrrv. varnarmálaráðherra Þýskalands, berjist fyrir að þingið staðfesti einróma tilnefningu leiðtogaráðs ESB á henni sem forseta framkvæmdastjórnar ESB. „Ferlið hefur þróast í farsa með Danann Margrethe Vestager í aukahlutverki,“ segir blaðið. Þýskir jafnaðarmenn og einnig frjálslyndir ESB-þingmenn hafi breytt ESB í sandkassa þar sem Evrópuhugsjónin víki fyrir valdahagsmunum.

3-format2020Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB.

Sextán þýskir jafnaðarmenn á ESB-þinginu haldi fast í úrelta spitzenkandidat-kenninguna. Þótt kunni að vera skynsamlegt að auka völd ESB-þingsins hafi leiðtogar ríkisstjórna ESB-landanna að þessu sinni ekki komið sér saman um frambjóðanda sem félli að kenningunni. Þá hafi nafn Ursulu von der Leyen komið til sögunnar.

Við það hafi vandræðin aðeins magnast. Hún þurfi stuðning ESB-þingsins og þótt von der Leyen þyki hafa staðið sig vel á fundum með þingflokkum skipti það greinilega ekki neinu máli. Þýskir jafnaðarmenn í Brussel hafi dreift áróðurskjali gegn von der Leyen, einkum um að hún hafi staðið sig illa sem varnarmálaráðherra, til dæmis hefði endurnýjun á skólaskipi mistekist, óhóflegar greiðslur hefðu verið til ráðgjafafyrirtækja og orrustuþotur hefðu verið ófleygar. Óljóst sé hvers vegna þetta geri henni ókleift að gegna embætti framkvæmdastjórnar ESB.

Í lok leiðarans segir blaðið:

„Danskir jafnaðarmenn æsa sig ekki svona vegna von der Leyen og jafnvel flokksbræðrum þeirra í Berlín finnst framganga félaga sinna í Brussel vandræðaleg. Ástandið fari að líkjast brexit-upplausninni í Bretlandi. Verri umsögn er varla unnt að fá. Geta menn ekki andað rólega?“

Raunar þurfum við Íslendingar hvorki að fara til Brussel né London til að sjá að umræður sem tengjast ESB fara algjörlega úr böndunum. Væri unnt að sameinast um ástæðuna fyrir að Evrópusamstarfið, sem stofnað var til í nafni friðar, verður að svona miklu sundrungarafli yrði margt með öðrum brag í stjórnmálum hér og annars staðar. Deilur snúast þó oft í raun um annað en EES/ESB-málefni, þau eru notuð sem skálkaskjól.