12.7.2019 10:39

Valdabaráttan innan ESB

Ursula von der Leyen verður að tryggja sér 376 atkvæði af 751 í ESB-þinginu á þriðjudaginn. Hún hefur atkvæðin alls ekki á hendi.

Í dag (12. júlí) birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu um þrjár valdakonur innan ESB. Að vísu er enn óvíst hvort Urslua von der Leyen verði kjörin forseti framkvæmdastjórnar ESB. Þing sambandsins tekur afstöðu til hennar þriðjudaginn 16. júlí.

Fyrir utan að nefna von der Leyen snýst greinin um Christine Legarde, nýjan seðlabankastjóra evrunnar, sem kom við sögu ákvarðana varðandi Ísland í bankahruninu. Hún var þá fjármálaráðherra Frakka sem sátu í forsæti ráðherraráðs ESB.

Loks lít ég einnig á stöðu Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Margir líta hana sem „límið“ innan ESB fyrir utan að halda af festu og lipurð um stjórnvölinn í Þýskalandi síðan 2005. Nú hrellir hana líkamsskjálfti sem leiddi til þess að hún ákvað að sitja í stól á flötinni fyrir framan kanslaraskrifstofuna í Berlín ásamt Mette Fredriksen, forsætisráðherra Dana, fimmtudaginn 11. júlí þegar þær hlýddu á lúðrasveit þýska heiðursvarðarins leika þjóðsöng landanna.

80c61fac9a99cfc92b68e4116129b1c2Ursula von der Leyen.

Ursula von der Leyen verður að tryggja sér 376 atkvæði af 751 í ESB-þinginu á þriðjudaginn. Hún hefur atkvæðin alls ekki á hendi.

Mið-hægrimenn í EPP-flokknum (182) styðja hana. Innan næst stærsta þingflokksins, S&D, sósíalista og lýðræðissinna (153) eru skiptar skoðanir. Þjóðverjar innan S&D hafa sent eigin þingflokki bréf þar sem þeir ráðast harkalega á von der Leyen, saka hana um að hafa verið „máttlausa“ sem varnarmálaráðherra, auk þess sem þýska þingið rannsaki hvort ráðuneyti hennar hafi brotið gegn reglum um opinber innkaup.

Á ESB-þinginu voru frjálslyndir í þingflokki undir skammstöfuninni ALDE. Hann var lagður niður eftir ESB-þingkosningarnar í maí þegar flokkur Emmanuels Macrons í Frakklandi fékk í fyrsta sinn menn á ESB-þingið. Þingflokkurinn heitir nú e. Renew Europe, Endurnýjum Evrópu, og í honum eru 108 þingmenn. Þeir styðja von der Leyen enda styðji hún Margrethe Vestager frá Danmörku til æðstu embætta inna framkvæmdastjórnar ESB.

Hvorki græningjar né flokkar lengst til vinstri styðja Ursulu von der Leyen. Þingmenn hægra megin við miðju kunna að gera það en ekki fara fréttir af sérstökum fundum hennar með þeim.

Hér er ekki aðeins um það að ræða að konur styrki til muna stöðu sína í forystusveit ESB heldur einnig valdabaráttu milli leiðtogaráðs ESB, fulltrúa ríkisstjórna, og ESB-þingsins, kjörinna fulltrúa, sem vilja auka yfirþjóðlegt vald á kostnað þjóðríkjanna.