Valdabarátta í mörgum myndum
Umræðurnar sem nú fara fram eru vissulega átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þær eru þó ekki síður keppni milli stjórnarandstöðuflokkanna og innan þeirra.
Alþingi kom saman í gær (25. apríl) eftir páskaleyfi. Fyrstu 40 mínútur þingtímans fóru í farsakenndar umræður um „fundarstjórn forseta“. Taldi stjórnarandstaðan að það hefði breytt einhverju varðandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór mánuði fyrr, 22. mars, að þeir hæfu fyrr að ræða fundarstjórnina.
Samkomudagur alþingis í apríl breytti að sjálfsögðu engu til eða frá um efni þess máls. Allar ræður um það voru í raun út í bláinn.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, upplýsti í umræðunum að það væri stigsmunur á skýrsluumræðu og sérstakri umræðu um Íslandsbankamálið. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, flutti alþingi munnlega skýrslu um málið í gær og stóð umræðan um hana til klukkan 02.30 í nótt. Í dag kl. 16.00 er síðan sérstök umræða: „Sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Málshefjandi: Halldóra Mogensen. Til andsvara: forsætisráðherra,“ eins og segir í boðaðri dagskrá þingfundarins.
Umræðurnar sem nú fara fram eru vissulega átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þær eru þó ekki síður keppni milli stjórnarandstöðuflokkanna og innan þeirra. Óvildarorð í garð andstæðinga, fullyrðingar um siðleysi og lögbrot og kröfur um völd ber að skoða í því ljósi. Þingmennirnir eru mjög með hugann við eigið bakland. Framkoman og orðbragðið ber þess merki.
Það er einkennilegt að sjá þingfréttaritara Morgunblaðsins fullyrða í frásögn blaðsins í dag (26. apríl) að á þingfundi í gær hefði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra „fáu“ svarað ósvífinni ræðu píratans Halldóru Mogensen í garð fjármálaráðherra og stjórnarsamstarfsins. Forsætisráðherra svaraði málefnalega eins og hennar er siður og blaðamanninum þótti ekkert til svarsins koma, smitaður af farsanum.
Látið var eins og um orðinn hlut væri að ræða, jafnvel stjórnarskrárbrot, að flokksformennirnir hefðu komið sér saman um það utan ríkisstjórnarfundar en í nafni ríkisstjórnarsamstarfsins að endurskoða lög um sölu bankanna og bankasýsluna.
Kristrún Frostadóttir. Oddný Harðardóttir og Logi Einarsson (mynd: mbl.is).
Lögin sem um er deilt í þingumræðunum voru sett að frumkvæði Oddnýjar Harðardóttur, fjármálaráðherra Samfylkingarinnar árið 2012. Tilgangur þeirra var að skapa skil á milli pólitískrar stefnumótunar við sölu banka ríkisins og gæslu þess að henni væri fylgt og faglegrar framkvæmdar, hún var falin bankasýslunni. Þetta er skýrt og ótvírætt.
Nú gerist það innan Samfylkingarinnar að Kristrún Frostadóttir gerir ekki aðeins kröfu um formennsku í flokknum heldur lét hún þau orð falla í ræðustól alþingis í gær að Bjarni Benediktsson ætti að afhenda sér lyklavöldin í fjármálaráðuneytinu. Hún hikar ekki við að heimta flokksformannsembættið af Loga Einarssyni heldur einnig fjármálaráðuneytið af Oddnýju, ýtir báðum til hliðar.
Lyklavöld að ráðuneyti fær Kristrún ekki nema kjósendur veiti henni stuðning til þess. Þann stuðning hefur hún ekki. Hefur hún stuðning flokksmanna til að ýta Loga til hliðar?