Valdabarátta í ASÍ og kjarabaráttan
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, er meðal þeirra sem líklega bjóða sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands. Í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins (FRÚ) í gær (30. júlí) sagði hún undirbúning að kröfugerð vegna komandi kjarasamninga hafinn hjá einstökum félögum í Starfsgreinasambandinu. Boltinn væri „hjá grastótinni“ eins og hún orðaði það. Að þeirri vinnu lokinni yrði kröfugerðum safnað saman „og reynt að búa til eina heildstæða kröfugerð úr því“.
Nú eins og áður skiptist kröfugerðin í tvennt, annars vegar á hendur atvinnurekendum og hins vegar ríkissjóði og ríkisstjórn. Í samtali Drífu við FRÚ er lögð áhersla á samanburð við aðra frekar en á það sem áunnist hefur með mestu kaupmáttaraukingu sögunnar undanfarin ár. Hún virðist tekin sem sjálfsagður hlutur og þess í stað er látið eins og viðvaranir um nauðsyn þess að stíga varlega til jarðar séu „grýlur sem eru dregnar á flot núna um heimsendi ef það verða hér almennilegar hækkanir til handa launafólki“ svo að vitnað sé til orða Drífu.
Í Morgunblaðinu í dag (31. júlí) er rætt við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Hann segir ríkisstjórnina hafa rætt og vilji ræða við aðila vinnumarkaðarins en segir jafnframt: „Kjaraviðræður á almenna markaðnum snúast um kaup og kjör en eiga ekki að snúast um sífellda kröfugerð á stjórnvöld.“
Ríkisstjórnin sé með áform um að lækka skatta og taka til endurskoðunar samspil skatta og bótakerfa. Reynslan sýni að farsælast sé fyrir alla að fara inn í kjaralotu með bjartsýni á góða niðurstöðu og sátt en ekki að efna til ófriðar fyrir fram. Talsmenn launþegahreyfingarinnar eigi að eigni sér eitthvað af þeim mikla árangri sem hafi náðst með aukningu kaupmáttar á undanförnum árum. „Hann er sögulega gríðarlegur en tónninn er eins og hér hafi verið mikil kjaraskerðing, að allt sé í uppnámi og þolinmæðin sé á þrotum. Ég verð að segja að það er undarlegt að heyra þennan tón,“ segir Bjarni.
Þetta má eins og áður sagði rekja til þess að barátta forystumanna launþegahreyfingarinnar snýst ekki um að sanna að vel hafi til tekist heldur um meting milli launþegahópa. Þarna er ekki um raunverulega baráttu fyrir bættum kjörum að ræða heldur valdabaráttu sem nær hámarki á 43. þingi ASÍ sem haldið verður 24. til 26. október 2018.
Sé látið undir höfuð leggjast að hafa 43. ASÍ-þingið inni í myndinni þegar rætt er við forystumenn launþega um þessar mundir er aðeins hálf sagan sögð.