5.11.2021 10:03

Væntingastjórnun í sóttvörnum

Væntingar almennings um betri tíð eru reistar á gömlum fyrirheitum um að almenn bólusetning auki frelsi.

Farsóttarfréttir eru ekki góðar í dag (5. nóvember). Í fyrradag greindust 144 smit hér á landi og nú segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við ríkisútvarpið að tölurnar frá því í gær séu enn hærri (uppfært: 167 smit, aldrei fleiri frá upphafi faraldurs). Hún ætli á fundi ríkisstjórnarinnar í dag að leggja til að gripið verði að nýju til hertra gagnráðstafana.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sent Svandísi minnisblað þar sem hann rekur sögu faraldursins og aðgerða gegn honum til þessa. Hann greini hvað hafi virkað og hvað ekki. Stefnt sé að því ná fjölda smita aftur niður í 40-50 á dag og viðhalda því.

Landsmenn þekkja þessi úrræði: fjöldatakmarkanir, tímamörk á veitingastöðum og grímuskylda fyrir utan fjarlægðarmörk og sprittnotkun.

Nú eru 76% Íslendinga fullbólusettir, það er 89% þeirra sem hafa náð bólusetningaraldri, 12 ára og eldri. Þetta er eitt hæsta hlutfall meðal þjóða heims og ætti að minnka álag á sjúkrahús og heilbrigðiskerfið en nú eins og jafnan áður eru hertar sóttvarnir einkum rökstuddar með vísan þess að heilbrigðiskerfið megi ekki bresta undan álaginu.

Þróunin hér undanfarið er í samræmi við reynslu annarra Evrópuþjóða. Hans Kluge, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), lýsti í gær Evrópu enn á ný sem „miðdepli“ farsóttarinnar. „Raunveruleg ógn“ steðjaði að heilbrigðiskerfum álfunnar. Hvatti hann ríki til að herða sóttvarnir og gagnaðgerðir:

„Við verðum að breyta um baráttuaðferð, hætta að bregðast við Covid-19-bylgjum, þess í stað verðum við að hindra að þær geti risið.“

Markmið Þórólfs sóttvarnalæknis um að halda smitum á bilinu 40 til 50 á dag er í samræmi við þessa herhvöt.

Í umræðum hér undanfarið hefur gætir þess að sóttvarnalæknir telur ekki tekið nægilega mikið mark á almennum viðvörunarorðum sínum. Fólk gæti ekki nógu vel að sér eitt og óstutt og almenningur sé of fráhverfur boðum og bönnum.

Allt er þetta rétt enda er lítið samræmi orðið í fréttum sem berast á heimavelli og frá útlöndum. Afléttingar boða og banna erlendis setja mikinn svip á fréttir og boðað var að til almennrar afléttingar kæmi hér um miðjan mánuðinn. Alls staðar voru fyrirvarar en samt opnuðu yfirvöld samfélögin.

GettyImages-1341836563-1320x880Í Bretlandi hefur verið veitt heimild til að nota pillur til að slá á einkenni vegna smitunar af kórónuveiru og minnka þannig líkur á innlögn á sjúkrahús.

Væntingar almennings um betri tíð eru reistar á gömlum fyrirheitum um að almenn bólusetning auki frelsi. Í fréttum af Landspítalanum er margt annað sett undir farsóttina sem snertir almennt vandræðaástand þar en ekki faraldurinn sem slíkan. Þær frásagnir rugla farsóttarmyndina. Hún þarf að vera skýr í huga almennings.

Um leið og saga farsóttarinnar er greind og áhrifamáttur einstakra gagnaðgerða er nauðsynlegt að greina hvernig best sé staðið að áhrifamikilli, jákvæðri miðlun upplýsinga um nauðsynlegar gagnráðstafanir við nýjar og gjörbreyttar aðstæður vegna bólusetninganna og tækifæra til hraðprófa og annars konar sýnatöku. Þá eru töflur til að slá á veiruna einnig á næsta leiti.

Það má ekki ríkja þöggun um „miðdepla“ smita í landinu. Það verður að upplýsa hvar þeir eru, staðsetja og aldursgreina smitbera, segja hvað er að baki tölfræðinni, hætta að ávíta almenning en upplýsa hann þess í stað.