Vælumenning og vatnsleki
Sif hefði líklega ekkert sagt vegna þess að Veitur eru opinbert fyrirtæki. Á því græðir enginn – eða hvað?
Sif Sigmarsdóttir skrifar vikulegan dálk í Fréttablaðsins í anda vælumenningar (e. wokeism), það er þeirra sem viðra skoðanir sínar opinberlega um félagslegt og stjórnmálalegt óréttlæti sem þeir telja sig beitta.
Í pistli sínum laugardaginn 17. september kvartar Sif Sigmarsdóttir undan því að hún neyðist til að sitja yfir súrnandi morgunverðarskál heima hjá sér í Islington-hverfi í London. (Þetta borgarhverfi skiptist í tvö þingkjördæmi og hefur Verkamannaflokkurinn meirihluta í báðum. Fyrir annað þeirra, Islington norður, er Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins frá 2015 til 2020 þingmaður. Hann er vinstri öfgamaður og ekki lengur talinn hæfur til setu í þingflokki Verkamannaflokksins.)
Sif segir að hún skrifi pistilinn við eldhúsborðið en venjulega geri hún það á litlu nálægu kaffihúsi yfir kaffi með froðu og smjördeigshorni. Hún geti það ekki núna. „Ástæðan er kapítalískur misbrestur, eða eins og það kallast á mannamáli: græðgi,“ segir hún.
Það varð flóð í Islington-hverfi fyrir mánuði. „Þungur straumur sem náði mönnum upp að mitti flæddi um götur. Hálfan dag tók að dæla vatninu burt. [...] Þegar upptök flóðsins urðu ljós greip um sig reiði. Orsökin var sprungin vatnsleiðsla. Árið 1989 var vatnsveita á Englandi einkavædd.“
Frá vatnslekanum inn í Háskóla Íslands í janúar 2021 (mbl.is/Kristinn Magnússon).
Hvað skyldi Sif hafa sagt byggi í hún í Hvassaleiti í Reykjavík þar sem stór vatnselgur myndaðist 2. september 2022 þegar að 80 sentímetra kaldavatnslögn með þrýstingi á fór í sundur? Varð mikið tjón í nálægum húsum vegna flóðsins. Eða ef hún stundaði nám í Háskóla Íslands? Stór kaldavatnslögn í Suðurgötu gaf sig aðfaranótt 21. janúar 2021 með þeim afleiðingum að feikimikið vatn fossaði inn í kjallara nokkurra bygginga Háskóla Íslands. Fóru þúsundir fermetra í aðalbyggingu háskólans, Lögbergi, Gimli, Árnagarði, Háskólatorgi og Stúdentakjallaranum og fleiri byggingum austan Suðurgötu undir vatn áður en tókst að loka fyrir rennsli um lögnina. Einnig mun eitthvað af vatni hafa streymt inn í Nýja Garð.
Sif hefði líklega ekkert sagt vegna þess að Veitur eru opinbert fyrirtæki. Á því græðir enginn – eða hvað?
Vatnsvandræði íbúanna í Islington takmarkast ekki við flóð. Vatnsveitan í London gerðist svo djörf að biðja fólk um að spara vatn: ekki fara í bað, bara sturtu; ekki vökva garðinn. Vatnsskortur blasti við, að sögn vegna þurrka yfir sumarmánuðina.
Sif tók þessu illa af því að á árunum 2007-2016 hefðu 95% hagnaðar vatnsveitufyrirtækja greidd verið greidd út sem arður.
Hvað hefði Sif sagt á liðnum vetri þegar opinbera fyrirtækið Landsvirkjun varð að takmarka raforkusölu vegna skorts á vatni?
Væludæmi Sifjar um vandræði viðskiptavina einkareknu vatnsveitunnar í London er algjörlega misheppnað í ljósi reynslu Reykvíkinga af vatnsflóðum í boði Veitna og viðskiptavina Landsvirkjunar af vatnsskorti. Leiðslur geta sprungið hjá opinberum vatnsveitum og skortur á regni valdið vandræðum hjá opinberum raforkufyrirtækjum.