1.9.2018 9:54

Útúrsnúningi vegna EES andmælt

Eins og allir sjá kýs Páll að snúa út úr orðum mínum. Ég segi hvergi að EES-samningurinn sé óhjákvæmilegur.

Líflegar umræður eru um EES-samninginn um þessar mundir. Ber að fagna því enda er nauðsynlegt að hafa auga á þróun mála á þeim vettvangi. Í þessum umræðum beinist athygli Páls Vilhjálmssonar bloggara að orðum mínum hér í gær. Hann segir á bloggsíðu sinni í dag (1. september):

„Hugmyndafræði EES-samningsins er komin í þrot. Evrópusambandið bjó til þennan samning fyrir 25 árum fyrir ríki sem voru á leið inn í sambandið. Á seinni árum notar ESB samninginn til að sækja sér valdheimildir yfir innanríkismálum EES-ríkja, nú síðast yfir raforkumálum.

Auk Íslands eiga Noregur og Liechtenstein aðild að EES-samningnum á móti Evrópusambandinu.

Bretar, sem eru á leið úr ESB, ætla ekki að ganga inn í EES-samninginn enda samræmist hann ekki fullveldi Bretlands.

Utanríkisráðherra Íslands skipar pólitíska nefnd sem skipa yfirlýstir stuðningsmenn EES-samningsins. Formaður nefndarinnar, Björn Bjarnason, segir

Ég var og er á móti ESB-aðild og tel að EES-leiðin sé best til óhjákvæmilegs samstarfs okkar við ESB.

EES-samningurinn er ekki óhjákvæmilegur fyrir samskipti nágrannaþjóða við Evrópusambandið. Ef svo væri yrði Bretland aðili að samningnum eftir úrsögn úr ESB.

EES-samningurinn er barn síns tíma. Ísland ætti að segja sig frá samningi sem samrýmist ekki fullveldi þjóðarinnar.“

Eins og allir sjá kýs Páll að snúa út úr orðum mínum. Ég segi hvergi að EES-samningurinn sé óhjákvæmilegur heldur tel ég hann bestu leiðina „til óhjákvæmilegs samstarfs okkar við ESB“. Hvergi hefur Páll, svo ég viti, sagt að Íslendingar skuli ekki að eiga neitt samstarf við ESB. Þótt menn hafi horn í síðu sambandsins er ólíklegt að nokkrum hér á landi komi til hugar að unnt sé að sniðganga það með öllu.

Images_1535795578896Þessi útúrsnúningur Páls er því miður ekki einsdæmi í umræðum um íslensk utanríkismál eða samstarfið við ESB sérstaklega. Vegna 3. orkupakka ESB er sú kenning meðal annars á sveimi að árið 2027 kunni íslensk stjórnvöld að standa frammi fyrir því að einhver erlendur aðili hafi lagt sæstreng milli Íslands og ESB-lands og Brusselmenn heimti að honum verði stungið í samband hér á landi. Til að forðast þessi ósköp verðum við að standa utan pakkans.

Við þurfum ekki að fara langt yfir skammt til að leita að dæmum um falsfréttir eða upplýsingafalsanir!

Þá skal því haldið til haga í þessari sömu andrá að ég hef aldrei sagt að EES-samningurinn í núverandi mynd sé óhagganlegur og raunar talið Bretum fyrir bestu að gerast aðilar að honum samhliða uppfærslu hans. Eins og pólitíska öngþveitið vegna Brexit ber með sér hafa Bretar ekki haft vit á að fara að þessum ráðum.