7.8.2019 9:30

Útlendingar kaupa dönsk sumarhús

Á árunum 2007 til 2018 hefur Civilstyrelsen veitt 2.238 leyfi til kaupa á sumarhúsum.

Civilstyrelsen er dönsk stjórnarskrifstofa undir dómsmálaráðuneytinu. Meðal verkefna hennar er að gefa út leyfi til útlendinga sem vilja eignast það sem á dönsku er kallað sekundærbolig í Danmörku. Með því er einkum átt við sumarhús.

Við mat á því hvort leyfi sé gefið vegur þyngst hvort umsækjandi hafi dvalist áður í Danmörku. Hafi hann verið 25 sinnum eða oftar í fríi í Danmörku undanfarin 25 ár fær hann yfirleitt leyfi til að kaupa sumarhús. Þá vegur einnig þungt eigi maður fjölskyldutengsl við einhvern í Danmörku og hafi oft samband við hann. Þá skiptir máli hvort maður þekkir danska sögu eða hefur haft kynni af dönsku menningarlífi og samfélagi. Að kunna dönsku telst umsækjanda til ágætis. Einnig að maður hafi dvalist oft í sama húsinu í fríum í Danmörku.

Í umræðum hér á landi um landakaup útlendinga er gjarnan vitnað til þess að við aðild að Evrópusambandinu í upphafi áttunda áratugarins hafi Danir fengið undanþágu til að vernda sig gegn kaupendum á sumarhúsum. Þeir fengu þar viðurkenningu á lögum sem sett voru árið 1959.

Hus.dr.dkÁ vefsíðu danska ríkisútvarpsins, dr.dk birtist mánudaginn 5. ágúst frétt um viðskipti með sumarhús í Danmörku. Þau séu mikil því að á fyrstu mánuðum þessa árs hafi tæplega 5.000 hús selst. Kaupendurnir séu þó ekki aðeins Danir, engin regla sé án undantekninga.

Árið 2007 gaf Civilstyrelsen aðeins 54 leyfi til útlendinga vegna kaupa á sumarhúsum en í fyrra voru leyfin 374. Norðmenn eru fjölmennastir ásamt Þjóðverjum og Svíum en í kaupendahópnum eru einnig Bandaríkjamenn og Kínverjar.

Á árunum 2007 til 2018 hefur Civilstyrelsen veitt 2.238 leyfi til kaupa á sumarhúsum. Fasteignasali segir að fjölgun leyfa sé ekki að rekja til meira umburðarlyndis af hálfu yfirvalda heldur til aukins áhuga kaupenda.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag (7. ágúst) segir að ríkisstjórnin ætli á fundi sem haldinn verður í Mývatnssveit fimmtudaginn 8. ágúst að ræða landakaup útlendinga hér á landi. Til umræðu hefur verið að fara að fordæmi Dana og Norðmanna í þessu efni.

Eins og fréttin á dr.dk sýnir segja reglurnar ekki alla söguna, framkvæmdin skiptir mestu. Þar ræður framboð og eftirspurn.