Útlendingamál í ólestri
Fari fjölmiðlamenn á vefsíður héraðsdómstóla má lesa dóma í málum nafngreindra einstaklinga sem snerta t.d. skjalafals við komu til landsins.
Rætt er við Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, um útlendingamál í Morgunblaðinu í morgun (19. okt.). Hann segist „ekki geta tjáð sig um einstök mál“ þegar hann er spurður mál hælisleitanda sem neitað var um hæli hér vegna þess að hann hafði fengið það í Grikklandi. Var honum vísað úr landi með lögreglufylgd. Þá segir í blaðinu:
„Nokkrum dögum síðar lenti sami maður á Keflavíkurflugvelli og sótti aftur um alþjóðlega vernd. Tekið var við umsókninni og maðurinn fór með leigubíl til Reykjavíkur þar sem umsóknarferlið hélt áfram eins og umsækjandinn væri að koma hingað í fyrsta sinn. Ástæðan var sögð sú að mönnum í hans stöðu væri vísað frá landinu en ekki vísað brott með endurkomubanni.“
Lögreglan staðfestir við blaðið „að þess séu dæmi að einstaklingar sem hefur verið neitað um vernd hér á landi hafi komið aftur og þá með ný skilríki og undir öðru nafni til að sækja um vernd“.
Spyr blaðið hver ákveði hvort um endurkomubann sé að ræða við brottvísun úr landi. „Útlendingastofnun er það lögbæra stjórnvald á Íslandi sem fjallar um umsóknir um alþjóðlega vernd,“ segir réttilega í svari lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Eins og kunnugt er vilja píratar og fylgismenn
þeirra að útlendingastofnun sé lögð niður, hún sé óþarfur þröskuldur við landamærin.
Fölsun skilríkja er arðbær glæpastarfsemi. Lögregla hér tekst á við þann vanda eins og lögregla um heim allan.
Lögreglustjórinn segist ekki geta fjallað um mál einstaklinga. Fari fjölmiðlamenn á vefsíður héraðsdómstóla má lesa dóma í málum nafngreindra einstaklinga sem snerta t.d. skjalafals við komu til landsins.
Í byrjun október féll héraðsdómur í Reykjavík yfir nafngreindum manni fyrir umferðarlagabrot og skjalafals en þegar lögregla stöðvaði hann framvísaði hann „grunnfölsuðu ökuskírteini frá Sýrlandi“.
Nokkrum dögum áður féll dómur í máli nafngreinds manns sem framvísaði 30. október 2018, „í blekkingarskyni við starfsmenn Útlendingastofnunar, vegna umsóknar sinnar um dvalarleyfi hér á landi, grunnfölsuðu sýrlensku sakavottorði ... útgefnu á nafn ákærða þann 27. desember 2015, og breytifalsaðri þýðingu sakavottorðsins,“ segir í lýsingu á málinu.
Um málsatvik segir að 1. júlí 2019 hafi útlendingastofnun beðið vegabréfarannsóknarstofu lögreglustjórans á Suðurnesjum skjöl mannsins. Hún leitaði aðstoðar erlendis. Niðurstaðan var að skjölin væru „afar vafasöm og á þeim báðum séu fölsuð atriði. Að öllum líkindum sé sýrlenska skjalið grunnfalsað, þ.e. að öllu leyti falsað. Erfitt sé að fullyrða um skjalaþýðinguna en stimplar og gjaldmerki á henni séu fölsuð“.
Ákærði hafnaði því að skjölin væru fölsuð. Sjötugur frændi hans hefði farið í innanríkisráðuneytið í Sýrlandi og sótt gögnin sem hann hefði greitt fyrir 400 dollara. Hann hefði sjálfur sótt gögnin í Þýskalandi og síðan framvísað þeim hjá útlendingastofnun.
Ákærði fékk 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm.
Þetta er veruleiki hér. Það tekur fjögur ár að leiða slík mál fölsunarmál til lykta í réttarkerfinu. Sá sem ekki telur umbóta þörf í útlendingamálum, gefi sig fram.