Útlendingamál í molum
Í ferðinni kynntust alþingismennirnir af eigin raun að með ákvörðunum sínum í útlendingamálum og afskiptum af framkvæmd útlendingalaganna hafa þeir skapað Íslandi varasama sérstöðu.
Í fjölmiðlum segir að stjórnvöld séu í raun ráðalaus vegna skorts á húsnæði fyrir flóttamenn. Sveitarfélögin vilja ekki semja við ríkið um þjónustu við flóttafólk sem lög skylda þau til að veita. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir á forsíðu Morgunblaðsins í dag (6. okt.) að útgjöld vegna móttöku flóttamanna séu langt umfram lögbundnar fjárveitingar.
Um það er ekki deilt að Úkraínumönnum á flótta undan hernaði Pútins sé veitt aðstoð. Hitt er alrangt að standa að útlendingamálum á þann veg sem gert hefur verið undanfarin ár með blessun ef ekki að kröfu alþingismanna, einkum pírata sem hertaka ræðustól alþingis í hvert sinn sem hreyft er aðgerðum sem er mun nærtækara að beita en hömlulausum útgjöldum, fjöldahjálparstöð og gámabyggð.
Sem aldursforseti danska þingsins stjórnaði Bertel Haarder fyrsta fundi þess þriðjudaginn 4. október. Hann gefur ekki kost á sér í þingkosningunum 1. nóvember. Áður en hann lauk þingmennsku gaf hann íslenskum alþingismönnum þau ráð að fara að alþjóðareglum um brottvísanir ólöglegra hælisleitenda og grafa ekki undan sameiginlegum ákvörðunum þjóða í því efni.
Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá ferð sem allsherjar- og menntamálanefnd alþingis fór á dögunum undir formennsku Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, til Danmerkur og Noregs til að kynna sér inntak og framkvæmd útlendingalaga.
Í ferðinni kynntust alþingismennirnir af eigin raun að með ákvörðunum sínum í útlendingamálum og afskiptum af framkvæmd útlendingalaganna hafa þeir skapað Íslandi varasama sérstöðu sem er undirrót vandans sem við er að etja um þessar mundir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var í ferð nefndarinnar. Hann segir í Morgunblaðinu:
„Mér fannst allir vera sammála um að það sem er í boði í hverju landi hafi veruleg áhrif á hælisleitendastrauminn þangað. Ekki síst hve miklir möguleikar eru á að tefja afgreiðslu mála með áfrýjunum og frestunum.“
Þeir sem berjast fyrir sérstöðu Íslands í þessum málaflokki og bera þar með höfuðábyrgð á vandanum núna hafa einmitt beitt þeirri aðferð sem lýst er í þessum orðum Sigmundar Davíðs.
Í Danmörku og Noregi undruðust menn hve mikill fjöldi fólks frá Venesúela leitar hér hælis. Ástæðan fyrir straumi þess fólks hingað er að íslensk stjórnvöld opnuðu dyrnar og þykjast ekki geta lokað þeim aftur.
Það er rétt mat hjá Sigmundi Davíð að í samanburði við stjórnarhætti í Danmörku og Noregi hafa íslensk stjórnvöld misst tökin á þessum málaflokki og það vísvitandi. Í því efni er helst við alþingismenn að sakast. Á alþingi hefur ekki verið veitt nauðsynleg fyrirstaða gegn öfgakenndum sjónarmiðum. Öfgakenndri fréttamennsku um þessi mál er einnig beitt, til dæmis gegn framkvæmd brottvísana.
Í blaðinu segir að aldursforseti danska þingsins, Bertel Haarder, hafi bent íslensku þingmönnunum á að alþjóðlegar reglur giltu um brottvísun þeirra sem ekki uppfylla skilyrði um vernd. Ekki eigi að vera neinar sérreglur sem eyðileggja kerfið.
Í þessari áminningu felst leiðsögn sem ber að virða. Þess er nú beðið að þingmannanefndin dragi lærdóm af fræðsluferð sinni og sýni í verki að til einhvers var af stað farið. Við svo búið má ekki standa í þessum málaflokki.