15.6.2024 10:49

Útlendingalögum breytt

Það kemur ekki á óvart að heila brú vanti í málflutning Pírata en að samfylkingarþingmenn hengi hatt sinn á afstöðu þeirra í hjásetu sinni hefur orðið þrautalending þeirra. 

Frumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, um breytingar á útlendingalögum var samþykkt á alþingi föstudaginn 14. júní með atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna auk Miðflokksins og Flokks fólksins. Þingmenn Viðreisnar og Samfylkingar sátu hjá en Píratar voru á móti.

Forsætisráðherra Bjarni Benediktsson sagði ríkisstjórnina nú grípa til aðgerða í útlendingamálum vegna þrýstings á félagslega og efnislega innviði í landinu. Dómsmálaráðherra sagði markmiðið að samræma okkar útlendingalög við löggjöf Norðurlandanna en jafnframt fjarlægja séríslenskar málsmeðferðarreglur. Nú væri komin heildstæð sýn og stefna í málaflokknum. Boðar ráðherrann frekari lagabreytingar síðar.

Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði flokkinn sitja hjá vegna ákvæða um fjölskyldusameiningu. Þar tók Samfylkingin undir málflutning Pírata sem sögðu ákvæði í frumvarpinu sem lúta að takmörkunum á möguleikum til fjölskyldusameiningar ekki bara óverjandi heldur væri þeim beinlínis beint gegn Palestínumönnum svo vitnað sé í Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur sem hrópaði einnig í ræðustól að frumvarpið væri „algerlega tilgangslaust“, ríkisstjórnin væri „svolítið bara að gera eitthvað út í loftið“.

Það kemur ekki á óvart að heila brú vanti í málflutning Pírata en að samfylkingarþingmenn hengi hatt sinn á afstöðu þeirra í hjásetu sinni hefur orðið þrautalending þeirra vegna mikils ágreinings innan sex manna þingflokksins og í flokknum í heild.

Screenshot-2024-06-15-at-10.47.41Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.

Bjarni Benediktsson kvað með eftirminnilegum hætti upp herör gegn ófremdarástandi á Austurvelli í byrjun janúar vegna tjaldbúða hælisleitenda þar í boði meirihluta borgarstjórnar undir forystu Dags B. Eggertssonar, þáv. borgarstjóra. Kristrún Frostadóttir tók undir sjónarmið Bjarna í hlaðvarpsþætti 10. febrúar 2024. Þá fóru hópar innan Samfylkingarinnar af stað gegn breyttri stefnu og nú skila þingmenn hans sem sagt auðu á þingi enda var ákveðið á flokksvettvangi að svæfa málið í nefnd.

Breytingin á útlendingalöggjöfinni er markvert skref frá samstöðunni á þingi þegar útlendingalögin voru samþykkt árið 2016. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ákvað fyrir um áratug að leita samstöðu allra flokka um útlendingalöggjöfina. Var þingmanni úr stjórnarandstöðunni falin formennska í nefndinni til að sýna sáttavilja stjórnarinnar. Stjórn málaflokksins í stjórnarráðinu hefur síðan verið á herðum ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hvað eftir annað hafa viljað breyta þessum lögum án nægilegs stuðnings fyrr en nú.

Það er hlálegt að Sigmundur Davíð og skósveinn hans Bergþór Ólason, sem gengur erinda hans í tveggja manna þingflokki Miðflokksins, skuli telja sig hafa stöðu til árása á sjálfstæðismenn fyrir að hafa neyðst til að framfylgja útlendingalögum sem ætti að kenna við forsætisráðherrann Sigmund Davíð, þáverandi málsvara ríkisstjórnar þjóðarsáttar um útlendingamál.