19.5.2022 11:00

Útilokunaraðferð Dags B.

Höfnun Dags B. á símtali við Hildi ætti ekki að koma á óvart miðað við hve honum er tamt að sýna þeim óvirðingu sem hann telur að gangi á sinn hlut.

Erdogan Tyrklandsforseti vekur heimsathygli fyrir að ætla að bregða fæti fyrir aðild Finna og Svía að NATO nema hann fái eitthvað fyrir sinn snúð. Hann sagði í ræðu í gær: „Þeir vilja koma á mánudaginn. Þeir ættu að sleppa því. Þess er ekki þörf.“ Hann vill sem sagt ekki að sendinefnd Finna og Svía komi til viðræðna við sig eða tyrknesk stjórnvöld í næstu viku.

Þessi útilokunarpólitík er í ætt við aðferðirnar við myndun meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, svarar ekki ósk Hildar Björnsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna, um símtal. Píratar útiloka samtal við sjálfstæðismenn og lesa upp langt synda- og spillingarregistur máli sínu til stuðnings, að hætti þeirra sem stunduðu galdraofsóknir. VG ætlar ekki að tala við neinn heldur fá frið til að sleikja sár sín. Sósíalistar fara að fordæmi Sólveigar Önnu sem rak alla af skrifstofu Eflingar til að hún gæti raðað já-fólki í kringum sig. Viðreisn reynir að standa á eigin fótum og hafa aðra skoðun en Dagur B. segir að hún hafi. Framsókn er á báðum áttum.

IMG_4927Við Fríkirjuveginn í Reykjavík.

Höfnun Dags B. á símtali við Hildi ætti ekki að koma á óvart miðað við hve honum er tamt að sýna þeim óvirðingu sem hann telur að gangi á sinn hlut.

Þegar kosningabaráttan var að skríða af stað birti Morgunblaðið fréttir um samskipti Dags B. og þeirra sem eiga bensínstöð við Ægissíðu og vilja reisa þar íbúðarhús. Mátti skilja fréttirnar þannig að ekki væri allt sem sýndist. Viðbrögð borgarstjóra voru að vara almenning og sérstaklega kjósendur í Reykjavík við Morgunblaðinu. Því mætti ekki treysta fram að kosningum. Hvorki heyrðist hósti né stuna frá Blaðamannafélagi Íslands vegna þessarar aðfarar að heiðri blaðamanna á Morgunblaðinu. Þá var ekki talað um að „þétta raðirnar“ til varnar félagsmönnum eins og nú þegar blaðamannafélagið og Félag fréttamanna á ríkisútvarpinu sameinast.

Óvildinni í garð Morgunblaðsins fylgdi Dagur B. eftir með því að neita að sitja fyrir svörum í sjónvarpsþætti þess Dagmálum fyrir kosningarnar. Stjórnunarstíll Dags B. hefur einmitt falist í feluleik fyrir fjölmiðlamönnum þegar erfið mál ber hæst. Hann velur sér þá viðmælendur í fjölmiðlum sem hann veit að ganga ekki of nærri honum og sætta sig við hálfkveðnar vísur sem svör í stað þess að fara leiðina á enda.

Meta má andrúmsloftið í fjölmiðlaheiminum og afstöðu þeirra sem þar gefa tóninn af þögninni sem ríkir um þá aðferð Dags B. að tala aðeins við viðhlæjendur. Er það ekki aðeins í Morgunblaðinu, skotspæni Dags B., þar sem vakið er máls á útilokunarstefnu hans?

Komast forystumenn í öðrum flokkum þegjandi upp með að fara að fordæmi Dags B.? Nýlegt dæmi: Því var rækilega flaggað á dögunum á Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefði farið í fjölmiðlafelur eftir óheppileg ummæli í framsóknarhófi eftir búnaðarþing.

Hér er ekki um léttvægt mál að ræða heldur þráð í opinberum umræðum sem setur svip á stjórnmálin og greiningu á þeim. Stjórnmálaskýrendur sem nota þenna þráð hálsannleikans hitta ekki naglann á höfuðið, álitið eða söguskoðunin er annað en staðreyndir, óskhyggja ýtir þeim til hliðar.