Útflutningsverðmæti eykst – verðbólga hækkar
ölurnar í fréttabréfi SFS sýna í hnotskurn verðhækkanir á alþjóðamörkuðum sem koma íslenska þjóðarbúinu til góða. Þær minna einnig á hækkandi alþjóðlega verðbólguöldu.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sögðu í fréttabréfi í gær (7. febr.) að útflutningsverðmæti sjávarafurða hefði numið 24,6 milljörðum króna í janúar og ekki verið meira í janúarmánuði frá árinu 2002, það er eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná. Aukningin væri rúmlega 44% í krónum talið miðað við í fyrra en um 50% í erlendri mynt þar sem gengi krónunnar hefði verið ríflega 4% sterkara í janúar 2022 en í janúar 2021.
Í fréttabréfinu er bent á að þrátt fyrir þessar háu tölur sé útflutningsverðmæti sjávarafurða rétt rúm 32% af verðmæti alls vöruútflutnings í janúar samanborið við tæp 35% í janúar í fyrra. Vægi sjávarafurða í vöruútflutningi í janúar hafi í raun ekki verið minna á þessari öld. Þetta megi að stærstum hluta rekja til þess að útflutningsverðmæti áls og álfurða jókst um 69% á föstu gengi. Útflutningsverðmæti áls hafi aukist í fyrra um 40% á milli ára á föstu gengi. Þar af megi rekja um 38% til verðhækkana, en álmagnið jókst um rúmt 1%. Þar fyrir utan jókst útflutningsverðmæti annarra iðnaðarvara mun meira en sjávarafurða, eða um 71% á milli ára á föstu gengi. Þá er ótalin aukning í fiskeldi, sem nam um 96% á milli ára. Í heild var verðmæti vöruútflutnings 62% meira á föstu gengi í janúar 2022 en í janúar 2021. „Telja má góðar líkur á að hér eigi verðhækkanir stóran þátt miðað við fréttir að undanförnu, frekar en að það sé mikil aukning á framleiðslu,“ segir í lok fréttabréfs SFS.
Þessar verðhækkanir falla að þróuninni á alþjóðamörkuðum. Vísitala neysluverð hækkaði til dæmis um 7,3% í janúar 2022 miðað við janúar 2021 í Bandaríkjunum. Er þetta mesta hækkun vísitölunnar milli ára þar í landi frá 1982 að mati Bloomberg-sérfræðinga. Þeir telja að verðbólgan nái hámarki í Bandaríkjunum í febrúar og ekki sjáist enn merki um hækkun verðbólgu til langs tíma.
Hér á landi mældist verðbólga 5,7% í janúar 2022. Í umræðum á alþingi mánudaginn 7. febrúar sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra töluna „áhyggjuefni“ enda „töluvert frá verðbólgumarkmiði Seðlabankans“. Hann sagðist jafnframt „mjög eindregið“ þeirrar skoðunar „að röng viðbrögð við þessum verðbólgutölum [gætu] aukið á verðbólguvandann“.
Menn yrðu aðeins að gefa sér tíma til að greina tölurnar. Þar bæri hæst hækkun húsnæðisverðs og aðflutt verðbólga. Verðbólga í öðrum löndum birtist hér í verðlagi á innfluttri vöru. Verðbólgan virti ekki landamæri.
Ráðherrann sagði að framboðshliðin á húsnæðismarkaðnum hefði brugðist. Efla yrði stjórntæki til að fylgjast með framvindu á þeim markaði. Það væri auðvitað út í hött í alvöruhagkerfi að menn ækju á milli svæða og handteldu fjölda íbúða í byggingu. Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hefði reynst algjörlega gagnslaust verkfæri. Við værum nánast að slíta barnsskónum þegar litið væri til stjórntækja til að hafa áhrif á húsnæðismarkaðinn.
Tölurnar í fréttabréfi SFS sýna í hnotskurn verðhækkanir á alþjóðamörkuðum sem koma íslenska þjóðarbúinu til góða. Þær minna einnig á hækkandi alþjóðlega verðbólguöldu. Hún gengur vonandi yfir án varanlegs tjóns. Heimatilbúni vandinn á húsnæðismarkaðnum er sjálfskaparvíti, þau eru jafnan erfið, sérstaklega neiti menn að horfast í augu við þau.