Ursula hjálpar ríkisstjórninni
Það eina sem vantaði á blaðamannafundinn var að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra kæmi og hrópaði: Gerum þetta saman!
Undanfarin 30 ár hef ég sjaldan beðið lesendur síðu minnar afsökunar vegna rangfærslna hér á síðunni. Nú er hins vegar komið að því í stórmáli.
Fyrir 10 árum, og oft síðan, lýsti ég þeirri skoðun að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefðu með bréfum og samtölum við ráðamenn ESB í Brussel slitið ESB-aðildarferlinu sem hófst með samþykkt alþingis 16. júlí 2009.
Heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hingað til lands fimmtudaginn 17. júlí 2025 staðfesti endanlega að þeir félagar, sem nú eru í forystu Miðflokksins, höfðu rangt fyrir sér og þar með einnig við sem studdum málstað þeirra.
Ég tek fram að þetta er í eina skiptið sem ég hef stutt Sigmund Davíð í slíku stórmáli. Af þeim sökum lenti ég meðal annars upp á kant við vin minn og samstarfsmann til margra ára, Styrmi Gunnarsson. Þá var leiðarhöfundur Mogunblaðsins einnig þeirrar skoðunar að yfirlýsingar þeirra Gunnars Braga og Sigmundar Davíðs væru ekki pappírsins virði.
Ursula von der Leyen og Kristrún Frostadóttir á blaðamannafundi 17. júlí 2025 (mynd: mbl.is/Hákon).
Ég ætla ekki að rifja upp gömul rök mín en í grunninn var ég þeirrar skoðunar að Brusselmenn virtu það sem þeim væri formlega tilkynnt. Þeir tóku Ísland að vísu af lista yfir umsóknarríki en biðu laumulega rólegir með annað og sættu færis þegar þeir sáu sig geta stuðst við ríkisstjórn hér sem vildi aðild að ESB. Stjórn með þessa stefnu birtist eftir kosningarnar 30. nóvember 2024. Fram að kjördegi var farið hljóðlega með allt ESB-ráðabrugg.
„Ég tel að það sé mikilvægt að minna á að umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið er enn þá í gildi,“ sagði Ursula von der Leyen á blaðamannafundi á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli 17. júlí 2025 við hlið Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra sem þagði þessu til samþykkis. Von der Leyen sagði Íslendinga vel undir það búna að hefja þetta ferli að nýju. Þá gætu allir séð og heyrt hve mikill samhljómur væri í orðum hennar og Kristrúnar.
Það eina sem vantaði á blaðamannafundinn var að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra kæmi og hrópaði: Gerum þetta saman!
Utanríkisráðherra skrifaði 18. júlí stutta hugleiðingu á Facebook um komu Von der Leyen án þess að minnast á þessa lykilyfirlýsingu forseta framkvæmdastjórnarinnar. Hún hefur varla verið gefin án vitundar íslenskra stjórnvalda enda ríkisstjórninni til stuðnings.
Áður en Þorgerður Katrín varð utanríkisráðherra sagði utanríkisráðuneytið (8. nóvember 2024) að viðræðum við ESB hefði verið slitið á sínum tíma. Er þetta enn stefna ráðuneytisins eða skipar það sér nú við hlið framkvæmdastjórnar ESB í túlkun sinni á stöðu Íslands? Þetta þarf að komast á hreint.
Flokkur fólksins hefur á sex þingum flutt tillögu á til ályktunar um „að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu“. Flokkurinn hefur til þessa vantreyst Brusselmönnum í þessu efni. Vantraustið reyndist á rökum reist. Treystir Flokkur fólksins sér til að sitja áfram í ríkisstjórn sem leggur nú allt sitt traust á þessa Brusselmenn?
Hvað segja Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi um þessi ósköp?