Uppvakningar á 10 ára ESB-umsóknarártíð
Bjóði ESB-aðildarsinnar ekkert annað en gamlar lummur á 10 ára ártíð íslenska ESB-aðildardraumsins halda uppvakningarnir áfram rölti sínu.
Um þessar mundir eru 10 ár frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem sótti um aðild að ESB árið 2009 féll frá aðildarumsókninni. Ríkisstjórnin féll frá umsókninni vegna þess að kjörtímabil hennar var á enda og kosningar á næsta leiti. Forystumenn stjórnarflokkanna sáu að það mundi ekki skila þeim neinu í kosningunum að berjast áfram fyrir ESB-aðild.
Þetta mat þeirra á viðhorfi kjósenda reyndist rétt. Stjórnarflokkarnir, Samfylking og VG, hlutu hroðalega útreið í kosningunum. Samfylkingin hefur ekki borið sitt barr síðan og því setið utan ríkisstjórnar í tíu ár, lengur en hún gerði á fyrri eyðimerkurgöngu sinni frá 2000 til 2007.
Nú sýna kannanir að með nýrri forystu kunni Samfylkingin eitthvað að rétta úr kútnum – allt ert það þó vegna óskrifaðs blaðs megi marka ræðu nýs formanns hennar, Kristrúnar Frostadóttur, á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 4. mars sl. Hún snerist mest um reiði í garð núverandi ríkisstjórnar og tæknileg atriði varðandi aðferðir við mótun nýrrar flokkstefnu á afmörkuðum sviðum.
Á árunum 10 sem liðin eru frá því að ESB-aðildarferlinu lauk hefur sú meginstefnubreyting orðið hjá ESB-aðildarflokkunum að þeir vilja ekki halda neinum aðildarsamskiptum við ESB áfram án þess að hafa til þess umboð frá kjósendum í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Á alþingi í júlí 2009 höfnuðu Samfylking og VG tillögu Sjálfstæðisflokksins um að þessi atkvæðagreiðsluleið yrði farin og gösluðust áfram af illa ígrunduðum ESB-ákafa sem skilaði að lokum engu öðru en miklu fylgistapi þeirra.
Eftir kosningar 2013 var mynduð ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, flokka sem voru andvígir ESB-aðild. Bundu framsóknarmennirnir forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson enda á ESB-umsóknarferlið á formlegan hátt árið 2015.
Vorið 2016 gerðist sá undarlegi atburður að stofnaður var nýr ESB-stjórnmálaflokkur, Viðreisn. Hann skýrir uppruna sinn á þann veg að árið 2014 hafi orðið til pólitísk hreyfing sem sætti sig ekki við að ríkisstjórn sem ekki vildi ESB-aðild efndi ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aðild!
Flokkurinn hefur lifað á þessu ágreiningsefni síðan og meðal annars tryggt Samfylkingunni forystu í borgarstjórn Reykjavíkur eftir kosningar 2018 og 2022.
Vegna COVID-19 faraldursins, stríðs í Úkraínu og verðbólgu af þeim sökum vakna ESB-aðildarsinnar á Íslandi til lífsins að nýju. Uppvakningarnir nærast einkum á óvild í garð íslensku krónunnar, óhjákvæmilegur dauði hennar og upptaka evru verði sér helst til lífs. Forráðamenn ESB sögðu Íslendinga ekki fá evru án þess að ganga fyrst í ESB.
Bjóði ESB-aðildarsinnar ekkert annað en gamlar lummur á 10 ára ártíð íslenska ESB-aðildardraumsins halda uppvakningarnir áfram rölti sínu.