18.9.2023 15:17

Uppræting flokks – þögn fréttastofu

Fréttastofan beitir valdi sínu til að þegja um ávirðingar í garð starfsmanna hennar. Varaþingmaður vill uppræta þann flokk sem er honum ósammála.

Mörgu einkennilegu verða menn vitni að í fjöl- og samfélagsmiðlum. Tvennt skal nefnt í stuttu máli frá er liðinni helgi:

1. Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins boðar að hann muni ganga að flokknum dauðum ef þingflokkurinn samþykkir að styðja endurflutning utanríkisráðherra á frv. um lögskýringu á bókun 35 við EES-samninginn.

Þegar þetta mál var flutt á þingi í mars 2023 kom í ljós að mikill meirihluti þingmanna studdi það. Af 19 umsögnum til utanríkismálanefndar studdi einnig yfirgnæfandi meirihluti umsagnaraðila frumvarpið. Þáverandi formaður utanríkismálanefndar, Bjarni Jónsson (VG), er á móti utanríkisstefnu Íslands. Hann komst ekki upp með moðreyk í NATO-málum en beitti tafaaðferðum gegn EES-frumvarpinu og komst því miður upp með það.

Bjarni hverfur nú úr formennsku utanríkismálanefndar.

IMG_7996Haustið sækir aö og menn búa sig undir umræður vetrarins.

Varaþingmaðurinn sagði fyrir flokksráðsfund sjálfstæðismanna 26. ágúst að hann ætlaði að leggja fyrir fundinn tillögu um andstöðu við frumvarp utanríkisráðherra.

Tillagan komst ekki út úr umræðuhópi flokksráðsins um EES-mál vegna andstöðu við hana innan hópsins og varaþingmaðurinn flutti aldrei tillögu sína á fundi með öllum flokksráðsmönnum og raunar talaði hann hvorki yfir þeim öllum né gekk á utanríkisráðherra með fyrirspurn.

Eftir fundinn sagðist varaþingmaðurinn ekki hafa viljað eyðileggja stemmninguna fyrir utan að hann hefði setið þannig að hann „náði ekki augnsambandi“ við Birgi Ármannsson fundarstjóra.

Nú er Sjálfstæðisflokknum hins vegar hótað bannfæringu og dauða nái varaþingmaðurinn ekki fram vilja sínum.

2. Framhaldsskólakennari lýsir á bloggsíðu sinni áliti á Samtökum 78 og kynfræðslu ungmenna.

Fréttastofa ríkisútvarpsins vekur athygli á að ummæli framhaldsskólakennarans séu umdeild. Rætt er við hann og síðan í hverjum fréttatímanum eftir annan við þá sem líklegt er talið að gagnrýni ummæli kennarans, þar á meðal vinnuveitanda hans sem segist virða málfrelsið þótt spurningar fréttastofunnar bendi til að sú afstaða sé óeðlileg.

Þetta er viðkvæmt mál. Önnur mál sem framhaldsskólakennarinn hefur reifað lengi eru ekki síður viðkvæm og snúa þau að fréttastofu ríkisútvarpsins og stofnuninni sjálfri. Af hálfu fréttastofunnar er ekkert gert til að upplýsa sannleiksgildi þeirra mála.

Framhaldsskólakennarinn lýsir umdeildri skoðun sem snertir starf Samtaka 78 og látið er að því liggja hjá fréttastofunni að kennarinn sé þess vegna óhæfur í starfi sínu. Framhaldsskólakennarinn lýsir því sem hann telur staðreyndir um ámælisverð vinnubrögð starfsmanna fréttastofunnar og þar á bæ þegja menn þunnu hljóði en upplýsa ekki hvort framhaldsskólakennarinn hafi eitthvað til síns máls.

Fréttastofan beitir valdi sínu til að þegja um ávirðingar í garð starfsmanna hennar. Varaþingmaður vill uppræta þann flokk sem er honum ósammála.