Uppnámsflokkurinn SD í stórsókn í Svíþjóð
Uppnámsflokkunum er lýst á þann veg að þeir séu á móti elítunni í viðkomandi samfélagi eða ráðandi öflum.
Í fjölmiðlum og stjórnmálum hér á landi er gjarnan vísað til þeirra stjórnmálahreyfinga sem ná til fleiri kjósenda nú en áður víða um Evrópu sem popúlista (lýðskrumara), öfgaflokka eða kynþáttahatara (rasista). Til að lýsa þeim og eðli þeirra má nota orðið uppnámsflokkar. Það orð er hlutlausara en hin en lýsir vel eðli flokkanna, stefna þeirra veldur uppnámi, hún brýtur upp gamalgróin kerfi. Hér á landi er orðið fjórflokkurinn gjarnan notað til að lýsa slíku kerfi. Uppnámsflokkunum er lýst á þann veg að þeir séu á móti elítunni í viðkomandi samfélagi eða ráðandi öflum.
Myndin sýnir fylgi stóru, sænsku stjórnmálaflokkanna: blái er mið-hægri flokkurinn, rauði jafnaðarmenn og guli Svíþjóðardemókratarnir (SD).
Hér á landi hefur uppnámsflokkum fjölgað. Jón Gnarr og Besti flokkurinn fékk brautargengi í borgarstjórnarkosningunum 2010 án þess að boða skýra stefnu í nokkru máli, markmiðið var að ná völdum sem tókst með aðstoð Samfylkingarinnar. Píratar eru flokkur af þessari gerð og einnig Flokkur fólksins. Hvorki er unnt að skilgreina Viðreisn né Miðflokkinn sem uppnámsflokka, þeir eru hefðbundnir klofningsflokkar úr gamalgrónum stjórnmálaflokkum. Þar ráða för einstaklingar sem vilja persónulega uppreisn eftir höfnun annars staðar.
Kosið verður til þings í Svíþjóð 9. september. Athygli þar beinist ekki síst að uppnámsflokknum, Svíþjóðardemókrötunum (SD). Ekki eru nema átta ár frá því að flokkurinn fór yfir 4% þröskuldinn og fékk menn fyrst á þing með 5,7% atkvæða. Tvær nýlegar kannanir sýna að fylgi flokksins mælist um 25%. Fengi hann þetta fylgi í kosningum yrði hann stærri en Jafnaðarmannaflokkurinn eða mið-hægriflokkurinn, Moderatarnir.
Rekja má uppruna SD til samtaka rasista, meðal þeirra sem stóðu að baki stofnun flokksins árið 1988 voru félagar í samtökunum Waffen-SS. SD hefur reynt að þvo af sér þennan stimpil og árið 2012 mótaði flokkurinn stefnu þar sem öllu sem hallast að rasisma er hafnað.
Hefðbundnir sænskir flokkar eru í öngstræti í umræðunum um útlendingamál. Þöggunin um vandann vegna mikils fjölda innflytjenda í Svíþjóð skapar jarðveg fyrir SD. Að þingmönnum annarra flokka þótti ekki við hæfi að eiga samskipti við þingmenn SD eftir kosningarnar 2010 skapaði þeim sérstöðu í huga almennings og sænskra kjósenda, þeir væru ekki hluti af stjórnmálaelítunni sem neitaði að horfast í augu við þjóðfélagsvandann sem rekja mætti til útlendingastefnunnar.
SD er dæmigerður uppnámsflokkur. Fylgi sitt má hann þakka vanmætti annarra sænskra flokka til að ræða og kynna það sem hvílir þungt á mörgum kjósendum, ekki af því að þeir eru rasistar heldur hinu að þeir telja sig hafa verið blekkta af fjölmiðlum og stjórnmálamönnum með fagurgala um ágæti þess að opna landið fyrir innflytjendum.