12.10.2023 10:10

Uppnám í stjórnarandstöðu

Að ráðast síðan á Bjarna vegna eigin oftúlkunar á orðum hans er aðeins til marks um að ráðist sé á manninn án þess að málefnið sé skoðað.

Það er ævintýralegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar við ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að víkja úr embætti fjármála- og efnahagsráðherra eftir að umboðsmaður alþingis taldi hann hafa brostið hæfi til að taka ákvörðun um sölu Íslandsbanka.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, býsnast yfir því í grein á Vísi dag (12. okt.) að það taki um viku að bregðast við áliti umboðsmanns og telur það til marks um hættulega lausung í stjórn landsins. Hafi menn ekkert til málanna að leggja grípa þeir gjarnan til þess ráðs að tala um að eitthvað sé gert á röngum tíma eða á of löngum tíma.

Upphlaup stjórnarandstæðinga nú er því tímaskekkja. Það lá fyrir strax og Bjarni efndi til blaðamannafundar síns að morgni þriðjudagsins 10. október að hann segði sig ekki frá setu í ríkisstjórninni. Hann sagði í ræðu á blaðamannafundinum sem auðvelt er að nálgast að hann ætlaði með vísan til niðurstöðu umboðsmanns að „láta af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra“.

IMG_8386

Þeir sem túlka þessi orð hans á þann veg að hann hafi sagt sig frá setu í ríkisstjórninni verða að eiga það við sig. Að ráðast síðan á Bjarna vegna eigin oftúlkunar á orðum hans er aðeins til marks um að ráðist sé á manninn án þess að málefnið sé skoðað. Píratar eru þar fremstir eins og fyrri daginn undir forystu formanns, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, sem lýsti fordæmingu á siðanefnd og forsætisnefnd alþingis þegar staðfest var að hún hefði brotið siðareglur alþingis.

Þorsteinn Pálsson, fyrrv. ráðherra, gagnrýnir málflutning stjórnarandstöðunnar á dv.is í dag þegar hann segir:

„Áformum Bjarna Benediktssonar um að hverfa úr fjármálaráðuneytinu án formlegrar lausnarbeiðni og halda því um leið opnu að taka við öðru ráðherraembætti hefur verið líkt við afsögn. Það er þá fyrsta afsögn án afsagnar, sem sögur herma.“

Þá segir Þorsteinn að hafi Bjarni „fengið lögfræðiálit embættismanns, áður en söluferlið hófst, um að ekki þyrfti að gæta að sérstökum hæfisreglum stjórnsýslulaga væri hugsanlega fullnægjandi að viðkomandi embættismaður víki“. Þessi orð má skilja á þann veg að Þorsteinn telji að umboðsmaður alþingis hafi ekki velt öllum steinum.

Þorsteinn veit af langri reynslu að ekki er ávallt auðvelt að túlka vanhæfisreglur. Að lokum er þar um persónulegt mat á öllum aðstæðum að ræða. Af áliti umboðsmanns í þessu máli má ráða að niðurstaða hans hefði getað orðið á hvorn veginn sem er, að lokum valdi hann þó að skella skuldinni á ráðherrann.

Í Noregi fara nú fram miklar umræður um hæfi vegna upplýsinga um fjármálaumsvif og hlutabréfaviðskipti eiginmanns Ernu Solberg, formanns Hægriflokksins, þegar hún var forsætisráðherra. Hún segist ekki hafa vitað um gjörðir eiginmanns síns (3.600 tilfærslur) en að fenginni vitneskju um þær hefði hún í ýmsum tilvikum lýst sig vanhæfa. Solberg nýtur trausts flokksmanna sinna og er talið er að hún leiði flokkinn í þingkosningum 2025. Flokkurinn er stærsti flokkur Noregs samkvæmt könnunum.