Uppnám í meirihluta borgarinnar
Borgarstjóri vegur ekki aðeins að andstæðingum flugvallarins heldur tekur málstað fjölskyldubílsins gegn strætó og honum finnst nóg komið af þéttingu byggðar,
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar grípa til þess gamla ráðs stjórnmálamanna í vanda að segja það gamlar fréttir að ágreiningur sé í meirihlutanum um afstöðuna til Reykjavíkurflugvallar og þess vegna hrikti ekki í samstarfinu þótt framsóknarmaðurinn Einar Þorsteinsson borgarstjóri lýsi stöðunni í baklandi sínu með því orði.
Andrea Sigurðardóttir blaðamaður ræðir við Einar Þorsteinsson í Dagmálum, sjónvarpshlaðvarpi Morgunblaðsins, og birtist frétt úr samtalinu í blaðinu í dag (6. febrúar).
Sjálfstæðismenn fluttu í borgarstjórn tillögu um að í aðalskipulagi Reykjavíkur yrði gert ráð fyrir að flugvöllur yrði að minnsta kosti til 2040 í Vatnsmýrinni. Borgarstjóri segir um afstöðu framsóknarmanna: „Við styðjum það eindregið.“ Afstaða Samfylkingar og Pírata og að einhverju leyti Viðreisnar sé að flugvöllurinn eigi að fara. „Ég skal bara vera hreinskilinn, það hriktir aðeins í kringum þetta mál,“ segir borgarstjórinn.
Forveri Einars, Dagur B. Eggertsson, hefur lengi barist fyrir því að allar nefndir eða starfshópar sem skoða annan kost en Reykjavíkurflugvöll loki ekki fyrir að lagður verði nýr flugvöllur í Hvassahrauni. Dagur B. hefur hangið á því hálmstrái á sama tíma og hann hefur með Hjálmari Sveinssyni, Pírötum og Viðreisn stundað stjórnsýsluleg skemmdarverk til að þrengja að Reykjavíkurflugvelli.
Gleggst hefur þetta birst á þeim 18 mánuðum sem liðnir eru síðan borginni var tilkynnt að tré í Öskjuhlíðinni ógnuðu öryggi flugvéla á austur/vestur braut Reykjavíkurflugvallar. Dagur B. setti málið inn í nefndakerfi borgarinnar þar sem það dormaði þar til boð bárust frá samgöngustofu fyrir skömmu um að flugbrautinni yrði lokað yrði ekki gripið til grisjunar. Einar Þorsteinsson virtist fyrst koma af fjöllum, borginni væri settur alltof skammur frestur. Það var alrangt.
Flugvallarandstæðingarnir í umhverfis- og skipulagsráði lágu einfaldlega á málinu. Síðan hefur verið sagt að borgin undirbúi að fella um 1.400 tré og að kostnaður sé um 200.000 kr. á tré! (Er miðað við dönsku stráin sem Dagur B. lét kaupa til að setja við Nauthólsvíkurbraggann?)
Píratar hafa látið meirihlutann fylgja stefnu um bíllausan lífsstíl en í samtalinu í Dagmálum segir Einar Þorsteinsson að þrengt hafi verið að fjölskyldubílnum með þeim skilaboðum að taka strætó sem bjóði þó ekki nógu góða þjónustu. „Við þurfum að sýna hvert öðru mildi þegar kemur að þessu,“ segir borgarstjórinn og hefur líklega leitt hugann að ofsanum í píratanum Dóru Björt Guðjónsdóttur þegar rætt er um fjölskyldubílinn á fundum meirihlutans.
Græna báknið sem raskar allri byggð við Álfabakka er minnisvarði um sólarlausu þéttingarstefnuna sem kenna má við samfylkingarmanninn Hjálmar Sveinsson. Borgarstjóri hafnar því að lengra verði gengið á þeirri braut þegar hann segir: „Við verðum að byggja ný stór hverfi, Keldnalandið, Úlfarsárdalinn og svo þurfum við að taka ákvörðun um Geldinganes líka.“
Til þessa hefur byggð í Geldinganesi verið eitur í beinum samfylkingarfólks.
Það hriktir ekki aðeins í vegna flugvallarins – hættustigið er almennt að nálgast rautt.