10.7.2018 10:16

Uppnám í Bretlandi

Þetta er vika mikilla tíðinda í Bretlandi en hugur almennings er líklega meira við gengi enska liðsins á HM í Rússlandi en uppnámið í pólitíkinni.

Óski 15% af þingflokki breska Íhaldsflokksins, 48 þingmenn, með bréfi eftir að fá að greiða atkvæði um forystu flokksins ber að efna til leiðtogakjörs innan Íhaldsflokksins. Bréfið ber að senda til formanns í 1922-nefndinni sem er sameiginlegur vettvangur þingmanna flokksins. Nafnið má rekja til þingkosninga í Bretlandi árið 1922 en eftir þær tóku óbreyttir þingmenn íhaldsmanna að        samræma afstöðu sína. Frá 2010 hefur ráðherrum verið heimilað að sitja fundi 1922-nefndarinnar.

_102454211_hi048036643Theresa May forsætisráðherra gerir neðri deild breska þingsins grein fyrir Brexit-stefnu ríkisstjórnarinnar.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, gerði neðri deild breska þingsins grein fyrir afstöðu ríkisstjórnar sinnar í Brexit-viðræðunum við ESB síðdegis mánudaginn 9. júlí, skömmu eftir að Boris Johnson utanríkisráðherra sagði af sér embætti vegna ágreinings við stefnu May. Stefnan nýtur stuðnings út fyrir raðir íhaldsmanna á þingi.

Eftir þingfundinn fór May á fund í 1922-nefndinni og sætti þar meðal annars ámæli fyrir að láta embættismenn sína kynna stjórnarandstöðunni Brexit-afstöðu ríkisstjórnarinnar fyrir þingfundinn. Fréttir herma að aðeins sex þingmenn hafi andmælt May á fundinum.

Blöðin segja að May búi sig undir leiðtogabaráttu. Enginn veit þó hvort Boris Johnson ætlar gegn henni. Hann hefur ekki styrkt stöðu sína í embætti utanríkisráðherra. Dómur margra innan og utan Bretlands er að farið hafi fé betra. Ríkisstjórnin sé öflugri eftir brotthvarf hans.

Margaret Thatcher var á leiðtogafundi í París þegar 1922-nefndin snerist gegn henni árið 1990. Ef til vill verður Theresa May á leiðtogafundi NATO-ríkjanna í Brussel þegar henni berast fréttir af uppreisn meðal eigin þingmanna? Eða hún verður á fundi með Donald Trump – en Bandaríkjaforseti verður á föstudag á Englandi þótt ekki verði farið með hann inn í London af öryggisástæðum. Frá London fer Trump á golfvöll sem hann á í Skotlandi og á mánudaginn 16. júlí hittir hann Vladimír Pútín í Helsinki.

Þetta er vika mikilla tíðinda í Bretlandi en hugur almennings er líklega meira við gengi enska liðsins á HM í Rússlandi en uppnámið í pólitíkinni. Forsíður blaðanna í dag eru helgaðar afsögn Johnsons og stöðu May en á morgun og fimmtudaginn verður það fótboltinn. Um helgina eftir að Trump hefur hitt drottninguna verður það fótboltinn aftur og úrslitin á Wimbledon á sama tíma – keppni um athygli milli fótbolta og tennis.