13.7.2021 9:59

Uppnám á Kúbu

Í sjúkrahúsum og lyfjaverslunum Kúbu eru ekki til nein lyf lengur, til dæmis hvorki pensilín né aspirín. Rafmagn er af skornum skammti og almenningur er oft og lengi án þess.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, boðaði í júní 2009 þegar fyrsti ICESAVE-samningurinn lá fyrir að Ísland yrði „Kúba norðursins" yrði hann ekki samþykktur og undirritaður. Íslendingar myndu mála sig út í horn og aldrei fá alþjóðleg lán alþjóðlega án samningsins.

Í blaðagrein sem birtist 14. febrúar 2013 sá Gylfi opinberlega að sér og sagði: „Samlíkingin við Kúbu var vanhugsuð og kjánaleg og ekki nema sjálfsagt að biðjast velvirðingar á henni.“ Skömmu áður, 28. janúar 2013, felldi EFTA-dómstóllinn dóm Íslendingum í vil og batt enda á ICESAVE-deiluna.

Niðrandi ummæli ráðherrans um Kúbu sem áttu að hræða Íslendinga til fylgis ICESAVE-afarkostina koma í hugann núna þegar fréttir berast um mestu mótmæli almennings á Kúbu gegn einræðisstjórn kommúnista þar í um það bil 60 ár.

Ástæður fyrir mótmælunum sunnudaginn 11. júlí eru margvíslegar enda er efnahagur þjóðarinnar í rúst og minnir helst á harðræðið sem ríkti á Kúbu eftir fall Sovétríkjanna í upphafi tíunda áratugarins.

58237030_303Kúbverjar mótmæla sunnudaginn 12. júlí.

Í sjúkrahúsum og lyfjaverslunum Kúbu eru ekki til nein lyf lengur, til dæmis hvorki pensilín né aspirín. Rafmagn er af skornum skammti og almenningur er oft og lengi án þess. Þeir Kúbverjar sem eru svo heppnir að eiga erlendan gjaldeyri bíða tímum saman í biðröðum eftir nauðþurftum eins og baunum og hrísgrjónum.

Þúsundir manna hrópuðu slagorð gegn örbirgðinni á götum borga og bæja um alla Kúbu sunnudaginn 11. júlí. Mannfjöldinn var virkjaður á skömmum tíma með netsamskiptum og stjórnvöld máttu sín lítils í fyrstu. Þau tóku fljótt netið úr sambandi og gerðu aðrar ráðstafanir til að einangra hópa mótmælenda.

Miguel Díaz-Canel Bermúdez, fyrsti forseti Kúbu utan Castro-fjölskyldunnar frá því að byltingin var gerð fyrir rúmum 60 árum, lýsti mótmælunum sem ógn við tilvist ríkisins.

„Vilji þeir eyðileggja byltinguna verða þeir að ganga yfir lík okkar,“ sagði forsetinn á forsíðu flokksblaðsins Granma mánudaginn 12. júlí. „Við munum gera allt sem gera þarf og við munum berjast á götum úti.“

Í blaðinu varð hann þó að viðurkenna að gífurlega miklir erfiðleikar steðjuðu að þjóðinni, hún yrði að sýna þolinmæði og ekki láta stjórnast af hulduöflum frá Washington sem spiluðu á „tilfinningar“ fólks á tíma COVID-19-farsóttarinnar.

Stuðningsmenn kommúnistastjórnarinnar láta gjarnan eins og allan vanda hennar megi rekja til viðskiptabanns Bandaríkjamanna. Barack Obama létti á bannreglum gagnvart Kúbu í forsetatíð sinni en Donald Trump færði ástandið fyrra horf og Joe Biden hefur ekki hróflað við ákvörðunum Trumps.

Andstæðingar viðskiptabannsins í hópi brottfluttra Kúbverja segja ástandið á eyjunni miklu verra og alvarlegra en svo en að unnt sé að skýra það eða afsaka með banninu. Undirrótin er í stjórnarfarinu sjálfu, úreltri einræðisstjórn sem heldur völdum með grimmd og ofbeldi.