19.2.2019 10:14

Upplýsingaskortur Viðreisnar

Þarna bar flokksformaðurinn blak af furðulegri og fámennri mótmælastöðu sem ungliðahreyfing Viðreisnar skipulagði með öðrum fyrir framan Ráðherrabústaðinn.

Á dögunum stóð Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, upp á alþingi og kvartaði undan því við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að hún vissi ekki hver væri stefna ríkisstjórnarinnar varðandi Brexit, úrsögn Breta úr ESB. Ráðherrann svaraði réttilega að ekki einu sinni Bretar vissu hvernig úrsögn sinni yrði háttað eða hvaða afleiðingar hún hefði.

Mánudaginn 18. febrúar stóð Þorgerður Katrín enn upp á alþingi og kvartaði því við forsætisráðherra að hún og utanríkismálanefnd þingsins hefði ekki verið nægilega upplýst um málefni í tengslum við komu Mikes Pompeos, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hingað til lands föstudaginn 15. febrúar.

Sjálf sagðist Þorgerður Katrín túlka orð Pompeos um að Ísland yrði ekki „vanrækt“ lengur á þann veg „að Bandaríkjamenn leggja aukna áherslu þegar kemur að varnar- og öryggismálum á svæðinu,“ eins og hún orðaði það og bætti við:

„Ég er eindreginn talsmaður vestrænnar samvinnu en það þýðir auðvitað ekki að við getum ekki leyft okkur að gagnrýna bandalagsþjóðir okkar, hvort sem þær eru vestan hafs eða austan.“

Þarna bar flokksformaðurinn blak af furðulegri og fámennri mótmælastöðu sem ungliðahreyfing Viðreisnar skipulagði með öðrum fyrir framan Ráðherrabústaðinn þegar Pompeo átti þar fund með forsætisráðherra.

1114358Uppreisn- ungliðahreyfing Viðreisnar átti hlut að mótmælum við Ráðherrabústaðinn vegna komu Pompeos. Myndin birtst á mbl.is.

Eins og fram kom í ummælum íslenskra ráðherra og Pompeos eftir fundi hans hér bar viðskiptamál hæst í virðæðunum. Gagnkvæmur vilji er til að samningsbinda þau á einhvern hátt. Um varnarmálin þarf ekki að semja. Um þau gildir samningur frá 1951 og á grundvelli hans hefur varnarsamstarfið verið lagað að breyttum aðstæðum í tæp 70 ár. Af máli Þorgerðar Katrínar mátti ráða að hún teldi að setja yrði einhver samningsmarkmið í samráði við utanríkismálanefnd alþingis vegna varnarmálasamstarfs ríkjanna. Skýrði hún það því miður ekki nánar.

Forsætisráðherra taldi að niðurstaða alþingis á sínum tíma um þjóðaröryggisstefnu legði grunn að sameiginlegri stefnu í varnar- og öryggismálum. Viðræður um viðskiptasamstarf sagði ráðherrann vera á „algjöru byrjunarstigi“ í höndum utanríkisráðherra og hægur vandi væri fyrir Þorgerði Katrínu að spyrja hann nánar út í hvar það mál væri statt. „Hins vegar liggur algjörlega fyrir að það á að hafa samráð við utanríkismálanefnd Alþingis um allar meiri háttar ákvarðanir,“ sagði forsætisráðherra.

Er undarlegt að Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, hafi ekki eitthvað bitastæðara til málanna að leggja þegar hún hvað eftir annað spyr forsætisráðherra um utanríkismál. Líklega stafar það af því að flokkur hennar varð til um aðeins eitt mál: að koma Íslandi í ESB. Eðlilegt er að það liggi í þagnargildi.