24.11.2020 9:55

Upplýsingaóreiðan á COVID-tímum

Hvar þetta fellur í skilgreiningu á upplýsingaóreiðu skal ósagt látið. Eitt er víst, ásetningur borgarstjórans í Reykjavík var skýr.

Margt rekur á fjörur þeirra sem lesa fréttir af heimsfaraldrinum eða í tilefni hans með upplýsingaóreiðu í huga Má þar til dæmis nefna „heimsfréttina“ um að auðkýfingurinn Michael Bloomberg, fyrrv. borgarstjóri í New York, hefði rætt við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra í Reykjavík, um gæfu Reykvíkinga að eiga lækni í stól borgarstjóra á tíma faraldursins enda hefði honum tekist frábærlega að bægja veirunni frá Reykvíkingum. Dagur B. tók hrósinu af alkunnu lítillæti. Hvar þetta fellur í skilgreiningu á upplýsingaóreiðu skal ósagt látið. Eitt er víst, ásetningur borgarstjórans í Reykjavík var skýr.

Fréttastofa ríkisútvarpsins flutti frétt laugardaginn 21. nóvember um að Landspítalinn stæði að óbreyttu frammi fyrir 4,3 milljarða hagræðingarkröfu á næsta ári að og hefði óskað eftir að fá að vinna hallann upp á þremur árum. Jafnvel þannig væri ljóst að þjónusta við sjúklinga ætti eftir að skerðast. Ólafur Darri Andrason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs spítalans, sagði að hagræðingarkrafan drægi úr slagkrafti spítalans í því að takast á við krefjandi verkefni. Sunnudaginn 22. nóvember hljóp Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á þessa frétt í færslu á Facebook og sagði meðal annars: „Það er hættulegt að leggja stífar aðhalds- og hagræðingarkröfur á heilbrigðisþjónustu í miðjum heimsfaraldri og þessu þarf Alþingi að breyta.“

Á vefsíðu ruv.is eru fréttir ríkisútvarpsins um þetta flokkaðar sem COVID-19-fréttir og ættu því að koma til athugunar hjá þeim sem skoða upplýsingaóreiðu vegna faraldursins, það er „miðlun rangra eða misvísandi upplýsinga, t.d. með fölsunum eða með því að höfða markvisst til tilfinninga ... [til að] ala á sundrungu eða laska orðspor keppinauta.“ eins og segir í skýrslu hóps þjóðaröryggisráðs.

Screenshot-2020-11-24-at-08.57.51Logi Einarsson notar frétt ríkisútvarpsins til að varpa skugga á fréttir föstudagsins 20. nóvember um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að létta enn frekar undir með einstaklingum, heimilum og fyrirtækjum með fjárstuðningi vegna faraldursins.

Að kvöldi mánudags 23. nóvember var kallað á Drífu Snædal, forseta ASÍ, í Kastljós til að gera ýmislegt í aðgerðum ríkisstjórnarinnar tortryggilegt. Fréttinni í COVID-19-dálkinum á ruv.is um þetta samtal við Drífu lýkur á þessum orðum:

„Hún [Drífa] sagðist hafa áhyggjur af sparnaðarkröfu á opinberar stofnanir og nefndi Landspítala og RÚV sem dæmi.“

Þarna er gefið til kynna að sjálft ríkisútvarpið sé líka komið undir niðurskurðarhníf ríkisstjórnarinnar.

Í Fréttablaðinu þriðjudaginn 24. nóvember birtist svo forsíðuviðtal við framsóknarmanninn Willum Þór Þórsson, formann fjárlaganefndar alþingis. Þar segir:

„Formaður fjárlaganefndar segir aðhaldskröfu á Landspítala 0,5 prósent en ekki 4,3 milljarða eins og komið hafi fram hjá RÚV. Fjármagn til spítalans hafi verið aukið verulega en úrlausnarefnið sé flókið.“

Hvað gerir fréttastofan núna? Ræðir við Ágúst Ólaf Ágústsson, fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd? Eða samfylkingarþingmanninn Helgu Völu Helgadóttur, formann velferðarnefndar alþingis? Varla talar hún við Willum Þór?