31.3.2021 10:09

Upplýsingaóreiða um litakóða

Það er sérkennilegt að orð eins „litakóðunarkerfi“ sé allt í einu gert að helsta ógnvaldi þjóðarinnar.

Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor greindi efnaghagsstöðuna á fróðlegan hátt í Kastljósi sjónvarpsins að kvöldi 30. mars. Hann sagði stóru myndina þá að 90% af hagkerfinu væru í lagi og kaupmáttur hefði aldrei verið meiri. Þá væru hér atvinnugreinar sem aldrei hefðu gengið betur, til dæmis verslun með föt og sala á öðru sem Íslendingar væru vanir að sækja til útlanda en keyptu nú innanlands.

Dómur prófessorsins var að vel hefði tekist að standa vörð um stærsta hluta hagkerfisins. Hann benti á að ferðaþjónustan næði yfir 10% hagkerfisins og hún hefði verið fryst í rúmt ár. Hann benti á að miðað við útbreiðslu og þunga farsóttarinnar í öðrum löndum væri of snemmt að grípa til aðgerða á landamærum Íslands til að fjölga ferðamönnum. Gylfi sagði:

„Ég hef alltaf sagt, verndum 90 prósent hagkerfið því það er svo hrikalegur skaði sem verður af því að hér sé farsótt innanlands, efnahagslegur skaði af henni er miklu meiri. Við björgum ekki 10 prósent hagkerfinu með því að hleypa pestinni inn í landið. Það er bara einhver hilling.“

Það vakti greinilega fyrir Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttamanni að fá Gylfa til að kveða upp dauðadóm yfir „litakóðunarkerfinu“. Þetta stendur á ruv.is:

„Ert þá að segja að til dæmis þessi áform stjórnvalda að opna landið 1. maí með þessu litakóðunarkerfi, að það sé bara glapræði?

„Já mér finnst að það ætti að gera áætlun sem hugsar um heildarhagsmuni, ekki bara eina atvinnugrein. Reynir að varðveita þetta sumar sem ferðasumar fyrir Íslendinga. Hver Íslendingur eyðir mjög miklu í samanburði við erlenda ferðamenn. Svo er hægt að bæta við einhverjum öruggum, bólusettum útlendingum sem fara í próf eða eitthvað slíkt ofan á. En ekki taka sénsinn með að missa bæði innlenda ferðaþjónustu og hitt,“ segir Gylfi.“


B471b67eb7d378593b83310acd0df111Fosshótel í Reykjavík, nýja sóttvarnahúsið.

Það er sérkennilegt að orð eins „litakóðunarkerfi“ sé allt í einu gert að helsta ógnvaldi þjóðarinnar. Líklega skilja fæstir hvað að baki orðinu stendur. Í nýjum reglum um komu yfir landamærin sem taka gildi 1. apríl, það er á morgun, er talað um tvo liti, þar segir:

„Skilgreind áhættusvæði: Þeir sem koma frá skilgreindum áhættusvæðum skulu dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Þetta á við ferðamenn frá löndum eða landsvæðum þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er yfir 500 (dökkrauð svæði) eða fullnægjandi upplýsingar um svæðið liggja ekki fyrir (grá svæði), samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu.“

Þá er í reglunum birtur listi yfir lönd og sagt að hann kunni næst að verða uppfærður 9. apríl. Er þetta litakóðunarkerfið ógurlega? Sé svo er augljóst að engin sjálfvirkni felst í að styðjast við það. Þarna er talað um skyldu til dvalar í sóttvarnahúsi og hefur ríkið leigt Fosshótel, stærsta hótel landsins, sem sóttvarnahús. Frá 11. apríl skulu þeir sem dvelja í sóttvarnahúsi greiða gjald fyrir dvöl í sóttvarnahúsi, fram að þeim tíma er enginn gjaldtaka. Gjaldið nemur 10.000 kr. fyrir herbergi hverja nótt og er fæði innifalið. Gildir þá einu hvort einn dvelur í herberginu eða fleiri einstaklingar sem ferðast saman.

Hver veit hvaða reglur gilda frá 1. maí? Er talið um þá dagsetningu og litakóðann hluti af skipulagðri upplýsingaóreiðu? Skýringar óskast.