10.11.2023 9:59

Upplýsingaóreiða um jarðelda

Á sama tíma og þessar dramatísku lýsingar eldfjallafræðinga birtast eru yfirlýsingar þeirra sem koma fram í nafni stofnana hófstilltari. 

Við upplifum nú upplýsingaóreiðu vegna misvísandi ummæla í fjölmiðlum í tilefni af jarðhræringum og kvikusöfnun undir yfirborði jarðar á Reykjanesi. Annars vegar kveða þeir mjög fast að orði Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og jarðefnafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, og Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands. Hins vegar berast hófsamari útleggingar á stöðunni frá sérfræðingum veðurstofunnar og talsmönnum almannavarna undir forystu ríkislögreglustjóra.

Ármann Höskuldsson segir á mbl.is í dag, föstudaginn 10. nóvember, að þakið sem er ofan á kvikunni sé „að gefa sig“ og fyrir honum sé „þetta bara dagaspursmál hvenær þetta kemur upp“.

Þorvaldur Þórðarson sagði á mbl.is fimmtudaginn 9. nóvember að að líkurnar á að það gjósi fljótlega væru 60/​40. Það yrði að fara í varnaraðgerðir núna. „Ég myndi frekar vilja kalla eftir rýmingu oftar og líta út eins og kjáni í fjölmiðlum en að vera með mannslíf undir,“ sagði Þorvaldur. Á visi.is sagði hann sama dag: „Persónulega finnst mér ekki seinna vænna að fara að setja upp neyðargarða til að verja Grindavík.“ Réttast væri að rýma bæinn „að minnsta kosti á nóttunni“. Fólk ætti að sofa „annars staðar á nóttunni“.

Ármann er ekki alveg eins svartsýnn. Hann segir að Grindvíkingar geti í rauninni verið „tiltölulega slakir“ því eins og þetta líti út núna yrði hraunið ekki komið þangað fyrr en eftir 4-5 daga. „Það á ekki að þurfa að vera panikk en menn þurfa bara að vita þetta,“ segir Ármann við mbl.is.

1450964Nú er unnið að því að undirbúa og ráðast í gerð þessa varnargarðs um Svartsengi og Bláa lónið.

Á sama tíma og þessar dramatísku lýsingar eldfjallafræðinga birtast eru yfirlýsingar þeirra sem koma fram í nafni stofnana hófstilltari. Víðir Reynisson hjá almannavörnum sagðist hiklaust myndi sofa í Grindavík. Á ruv.is er haft eftir honum 9. nóvember að bæði sé talað um að hraun geti runnið á einhvern stað á örfáum mínútum og fólk eigi ekki að sofa einhvers staðar á einhverjum ákveðnum stað út af þessum hlutum. Það sé ekki sagt í nafni almannavarna.

Benedikt Gunnar Ófeigsson jarðeðlisfræðingur hjá veðurstofunni sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar 9. nóvember að umræðan í samfélaginu um umbrotin á Reykjanesskaga hefðu einkennst mjög af tali um allra verstu sviðsmyndina. Engin söguleg gögn væru þó um að hún hefði áður gerst. Þótt ekkert mætti útiloka væri hún einfaldlega ekki líklegust.

„Líklegasta niðurstaðan er að þetta hætti og ef það fer af stað atburðarás sem endar í gosi þá er lang líklegast að hún taki talsvert marga klukkutíma og jafnvel daga, það er bara það sem reynslan úr öðrum gosum fyrri ára segir okkur,“ sagði Benedikt Gunnar.

Fyrir þá sem átta sig á hve miklir hagsmunir eru hér í húfi og hve eldsumbrot sem ógna virkjun og mannvirkjum við Svartsengi geta valdið miklu tjóni vegur gálaust tal með fræðilegum stimpli þungt til að skapa upplýsingaóreiðu sem grefur undan trú og trausti í garð þeirra sem standa í fremstu línu.

Hlustendur eða lesendur fjölmiðla átta sig vonandi fljótt á muninum á ígrunduðum yfirlýsingum og gaspri. Brýnt er að fjölmiðlamenn geri það líka og setji fyrirvara við það sem sagt er þegar þess er þörf.