21.12.2020 10:41

Upplýsingaóreiða um bóluefni

Allt er þetta svo óljóst að óboðlegt er. Að skýla sér á bakvið ESB í þessu efni og vísa til EES-samningsins stenst ekki.

Á vef stjórnarráðsins birti heilbrigðisráðuneytið sunnudaginn 20. desember:

„Íslensk stjórnvöld hafa þegar tryggt bóluefni sem dugir fyrir 87% þjóðarinnar í gegnum samstarf Evrópuþjóða með samningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Samningar sem Ísland hefur þegar lokið við lyfjaframleiðendurna Pfizer og Astra Zeneca tryggja 400.000 bóluefnaskammta sem nægja fyrir 200.000 einstaklinga. Þriðji samningurinn við bóluefnaframleiðandann Janssen verður undirritaður 23. desember næstkomandi og tryggir Íslandi 235.000 skammta sem nægja fyrir 117.500 manns. Alls tryggja þessir þrír samningar bóluefni fyrir rúmlega 376.000 einstaklinga. Þann 31. desember næstkomandi verður undirritaður samningur við Moderna en umfang samningsins varðandi fjölda skammta liggur ekki fyrir að svo stöddu“

Tilefni fréttatilkynningar var að bregðast við frétt frá Bloomberg-fréttastofunni 20. desember þar sem sagði að Ísland hefði sérstöðu meðal Evrópulanda vegna þess hve fá bóluefnisskammta það hefði tryggt sér, aðeins fyrir 29% af íbúum landsins. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að þessi tala sé 87% þjóðarinnar og er hún þá enn mun lægri en ESB-landa og Noregs. Þau hafa tryggst sér skammta sem nema 172% miðað við íbúafjölda. Bretar þrefalt fleiri skammta en íbúafjölda, Sviss 97% af íbúafjölda. Bandaríkin hafa tryggt skammta sem nema 154% af íbúafjölda og Ástralía 230%. Kanadamenn eru langfremstir þeir hafa tryggt meira en fimmfalt fleiri skammta en sem nemur íbúafjölda.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í Kastljósi í fyrri viku að bóluefni hefði verið tryggt fyrir 60 til 70% Íslendinga.

1246637Sóttvarnalæknir ræður ekki þessum innkaupum, hann kemur að skipulagningu bólusetninga án þess að framkvæmdin hvíli á hans herðum, þar á heilsugæslan hlut að máli.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra flutti alþingi munnlega skýrslu um bóluefni og bólusetningar föstudaginn 18. desember. Hún sagði:

„Strax eftir jól er fyrirhugað að hefja bólusetningar hjá framlínustarfsmönnum í heilbrigðisþjónustunni, sem eru rúmlega 1.000 manns. Jafnframt verður þá hafin bólusetning hjá íbúum á hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum, sem eru 3.000–4.000 manns. Þegar næsta sending kemur í byrjun næsta árs verður haldið áfram með bólusetningu hjá elstu aldurshópunum.“

Hún sagði einnig:

„Afhendingaráætlun að því er varðar efni Pfizer liggur nú fyrir fyrsta ársfjórðung þar sem að meðaltali um 3.000 skammtar koma á viku frá 27. desember og út mars. Þetta eru aðeins breytilegar tölur; frá 2.800 og upp í ríflega 4.000 skammta á viku á fyrsta ársfjórðungi.“

Allt er þetta svo óljóst að óboðlegt er. Að skýla sér á bakvið ESB í þessu efni og vísa til EES-samningsins stenst ekki. EES-samstarfið nær ekki til heilbrigðis manna. Lyfjaeftirlit ESB gegnir vissulega mikilvægu hlutverki en ræður engum úrslitum, þar ræður fullveldisákvörðun ríkja um þjóðaröryggi. Það er vissulega hér í húfi.