24.3.2022 11:30

Upplýsingaóreiða í þingsal

Þingsköp alþingis veita þingmönnum svigrúm til upphlaupa af þessu tagi. Á tímum þegar varað er við hættunni af upplýsingaóreiðu má spyrja hvort ekki sé skynsamlegt að þrengja þetta svigrúm.

Þingsköp leyfa að þingmenn geta rokið í ræðustólinn og látið móðan mása með fullyrðingum í spurnarformi án þess að hafa neitt fyrir því að rifja upp aðdraganda mála eða kynna sér þau efnislega. Síðan tekur fréttastofa ríkisútvarpsins upphrópanir til endurflutnings og endar daginn gjarnan með því að efna til umræðna um málið í Kastljósi, gjarnan með frásögn af því sem bera ábyrgð á viðkomandi máli hafi ekki viljað koma í sjónvarpssal. Oftast er það með þeim eðlilegu rökum að gefa þurfi tíma til meiri úrvinnslu máls áður en unnt sé að kynna alla efnisþætti þess.

Atvik af þessu tagi var í gær, miðvikudaginn 23. mars, þegar Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, bað um orðið undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta og tók að býsnast yfir sölu á hlut í Íslandsbanka. Þingmanninum var mikið niðri fyrir og samkvæmt því sem stendur á vefsíðu alþingis hóf hann ræðu sína á þessum orðum:

„Mér þótti það skrýtið að sjá í fjölmiðlum eftir lokun markaða í gær að hefja ætti sölu á Íslandsbanka fyrir 50 milljarða og að það ætti bara að gerast yfir nótt með engum fyrirvara.“

Þarna vísaði þingmaðurinn til þess að eftir lokun markaða þriðjudaginn 22. mars hóf Bankasýsla ríkisins söluferli með tilboðsfyrirkomulagi á að minnsta kosti 20% útistandandi hlutafjár Íslandsbanka sem jafngilti 400 milljón hlutum. Lauk söluferlinu áður ern markaðir voru opnaðir að morgni 23. mars.

1254643_1648121405454Viðreisnarþingmaðurinn var greinilega yfir sig hneykslaður og sá ekkert gott við söluna, gaf til kynna að það væri maðkur í mysunni og mátti skilja orð hans á þann veg að sala á Íslandsbanka væri honum ekki að skapi. Tvö flokkssystkini hans, Sigmar Guðmundsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sáu ástæðu til að taka fram að þau væru eindregið fylgjandi sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hneykslaðist á því að veittur hefði verið afsláttur á hlutabréfunum við söluna en Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með fjármálaráðherra að ekkert væri „óeðlilegt að það sé veittur einhver afsláttur í svona tilboðsfyrirkomulagi“.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagðist endilega vilja sérstaka þingumræðu um framkvæmd sölunnar. Hún hefði átt sér „margra mánaða aðdraganda, m.a. með aðkomu þingsins“. Framkvæmdin hefði verið eftir bókinni hvað sem skilningi einstaka þingmanna liði.. „Við vildum að þetta yrði heilbrigt eignarhald fyrir framtíð bankans og það þýðir m.a. að þú leggur þig ekki eftir langhæsta verðinu enda hefur svona fyrirkomulag, svona sala aldrei farið fram án afsláttar neins staðar í heiminum,“ sagði ráðherrann.

Af orðum píratans Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur í umræðunum má ráða að hún hefði viljað hátt verð á kostnað dreifðrar eignaraðildar.

Þingsköp alþingis veita þingmönnum svigrúm til upphlaupa af þessu tagi. Á tímum þegar varað er við hættunni af upplýsingaóreiðu má spyrja hvort ekki sé skynsamlegt að þrengja þetta svigrúm.