Uppljómun í Eldborg
Lofsamleg ummæli tónleikagesta falla að skoðun minni á ógleymanlegri stund þar sem frábær hljómsveit lék blæbrigðamikið við fingurgóma frábærs stjórnanda.
Tónleikar hollensku Concertgebouworkest í Hörpu að kvöldi miðvikudags 10. nóvember 2021 verða lengi í minnum hafðir af þeim sem þá sóttu. Þessi fræga hljómsveit hafði ráðgert að halda tónleika í Moskvu, Seoul og Japan á þessumn tíma en vegna farsóttarinnar varð að aflýsa þeim. Þess í stað komu listamennirnir hingað og fluttu 6. sinfóníu Dimítríjs Sjostakovitsj og 6. sinfóníu Pjotrs Iljits Tsjajkovskíjs, Pathétique, undir stjórn Klaus Mäkeläs. Sömu dagskrá ætlar hljómsveitin að flytja í Elbphilharmonie í Hamborg laugardaginn 13. nóvember.
Concertgebouworkest hefur aldrei komið hingað áður en hún var stofnuð árið 1888. Ástæðan fyrir að hún ákvað að sækja okkur heim er aðdráttaraflið sem Eldborgarsalurinn í Hörpu hefur. Það verður í raun aldrei metið til fjár að tekist hafi að skapa þá aðstöðu hér að tónlistarsalur kalli beinlínis á bestu flytjendur heims. Að svo sé sannaðist enn einu sinni að kvöldi 10. nóvember 2021.
Salur hljómsveitarinnar í Concertgebouw sem var opnaður sama ár og hljómsveitin kom til sögunnar þykir með bestu hljómburðarsölum í heimi og er gjarnan nefndur í sömu andrá og Boston's Symphony Hall og Musikverein í Vínarborg. Hljómsveitin er því góðu vön í heimasal sínum. Nú hefur hún bætt Eldborg í safn sitt. Salurinn í Elbphilharmonie er hannaður á allt annan veg en Eldborg, form hennar er gjarnan kennt við skókassa en form salarins í Hamborg við skel. Væri fróðlegt að heyra samanburð þessa reynslumikla hljómsveitarfólks á sölunum tveimur sem það heimsækir með fárra daga millibili.
Klaus Mäkelä er aðeins 25 ára og miðað við hve margir frábærir hljómsveitarstjórar ná háum aldri má spá honum glæstum ferli um margra áratuga skeið.
Mäkeläv er aðalstjórnandi og listrænn ráðgjafi Fílharmóníusveitarinnar í Osló. Í september 2021 varð hann stjórnandi Orchestre de Paris. Þá er hann gestastjórnandi hjá öllum frægustu hljómsveitum heims. Vorið 2022 fer hann með Oslóarfílharmóníuna í ferð með allar sinfóníur Síbelíusar til flutnings í Wiener Konzerthaus og Elbphilharmonie auk tónleika í Paris Philharmonie og London Barbican.
Frá 1888 hafa aðeins átta aðalstjórnendur verið ráðnir til að stjórna Concertgebouworkest sem skapar hljómsveitinni algjöra sérstöðu miðað við aldur hennar og gæði. Um þessar mundir er hún án aðalstjórnanda.
Concertgebouworkest í Eldborg 10. nóivember 2021, mynd Magnús Lyngdal Magnússon.
Hér verður látið hjá líða að leggja dóm á flutning hljómsveitarinnar í Eldborg. Þess í stað eru lesendur tengdir inn á FB-síðuna Rabb um klassíska tónlist sem Magnús Lyngdal Magnússon stofnaði og stýrir. Lofsamleg ummæli tónleikagesta þar falla að skoðun minni á ógleymanlegri stund þar sem frábær hljómsveit lék blæbrigðamikið við fingurgóma frábærs stjórnanda.
Dagskráin var áhrifamikil með tveimur sinfóníum tveggja rússneskra stórsnillinga. Hljómsveitin var allan tímann í aðalhlutverki í miklum tónverkum en ekki meðleikari eins og er þegar um einleik eða einsöng með hljómsveit er að ræða.