7.5.2017 12:02

Upplausnin á vinstri vængnum

Deilurnar innan breska Verkamannaflokksins eru af sama toga og leiddi til klofningsins meðal franskra sósíalista – ágreiningurinn milli hófsamra jafnaðarmanna og róttækra verður svo ákafur að þeir eiga ekki lengur samleið innan sama flokks.

Seinni umferð frönsku forsetakonsinganna fer fram í dag. Emmanuel Macron er spáð sigri.

Hann er 39 ára, fyrrverandi bankamaður, aðstoðarmaður François Hollandes, fráfarandi Frakklandsforseta, og efnahagsmálaráðherra. Hann ávann sér óvild vinstri arms franskra sósíalista, sagði skilið við Hollande og flokkinn fyrir ári og stofnaði eigin stjórnmálahreyfingu En Marche! eða Áfram!. Hann vill leiða Frakkland áfram innan hefðbundins ramma í innanríkis- og utanríkismálum en þó með breytingum sem hann nær ekki fram nema með stuðningi meirihluta á þingi – kosið verður til franska þingsins í júní og enn er allt óljóst um hvernig framboði Áfram! verður háttað.

Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, keppir um forsetaembættið við Macron. Í fyrri umferð forsetakosninganna voru 11 frambjóðendur og valdi Le Pen einn þeirra sem fékk sáralítið fylgi sem forsætisráðherraefni sinni yrði hún forseti. Marcon hefur ekki enn sagt hvern hann ætlar að skipa forsætisráðherra. Hann segist hins vegar hafa valið hann.

Frambjóðandi sósíalista í Frakklandi fékk aðeins um 6% atkvæða í forsetakosningunum. Flokknum er ekki spáð miklu fylgi í þingkosningunum: Franskir sósíalistar eru í svipaðri stöðu og breski Verkamannaflokkurinn sem fékk slæma útreið í sveitarstjórnakosningum fimmtudaginn 4. maí og gengur klofinn til þingkosninganna 8. júní.

Deilurnar innan breska Verkamannaflokksins eru af sama toga og leiddi til klofningsins meðal franskra sósíalista – ágreiningurinn milli hófsamra jafnaðarmanna og róttækra verður svo ákafur að þeir eiga ekki lengur samleið innan sama flokks.

Hér er þróunin á vinstri kantinum á sama veg og í Bretlandi og Frakklandi. Gunnar Smári Egilsson hefur valdið nýju uppnámi með því að stofna Sósíalistaflokks Íslands. Einhverjir telja að hann kunni að ná árangri vegna þess að hann sé þjóðþekktur – það standi vinstrisinnum á Íslandi helst fyrir þrifum hve lítt þekktir einstaklingar séu þar i forystu.

Þetta er sérkennileg kenning sem lýsir vantrausti á málstaðinn.