7.10.2023 11:27

Uppistand veldur uppnámi

Ofangreint bendir til þess að fyrir fréttamönnum ríkisútvarpsins hafi vakað að gera sér sem mestan mat úr þessu uppistandi Áslaugar Örnu. 

Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins fimmtudaginn 5. október sagði að „mikillar óánægju [gætti] innan Vinstri grænna með ummæli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í garð [Svandísar Svavarsdóttur] matvælaráðherra á sjávarútvegsdeginum“ miðvikudaginn 4. október.

Áslaug Arna hefði „snuprað“ Svandísi og „hæðst að“ ráðuneyti hennar. Ummælin hefðu fallið í grýttan jarðveg innan VG „svo vægt sé til orða tekið“ segir á ruv.is 5. október og einnig að VG-liðar hugsi „Áslaugu Örnu þegjandi þörfina“.

Þá vitnar ruv.is í grein sem Svandís birti í Morgunblaðinu 5. október um tilraunir hennar til að auka gagnsæi í sjávarútvegi.

Ljóst er að ólögmæta misnotkun sína á samkeppniseftirlitinu við öflun upplýsinga um innri mál sjávarútvegsfyrirtækja setur Svandís í það pólitíska samhengi að hún sé að berjast fyrir gagnsæi. Í Morgunblaðinu veitist hún að ritstjórn blaðsins sem telji „gagnsæi greinilega svo mikla ógn við fjársterka aðila að bregðast þurfi af afli við áformum stjórnvalda um að varpa skýru ljósi á sjávarútveginn“. Blaðið hefur flutt fréttir af ólögmætum samskiptum ráðuneytis Svandísar og samkeppniseftirlitsins.

1443366Hér sést Áslaug Arna flytja ræðu sína á sjávarútvegsdeginum. Það þótti óviðeigandi að hún birti þessa mynd á skjánum þegar hún ræddi um matvælaráðherra. Enginn utan fundarmanna veit hvað annað ráðherrann sagði í ræðu sinni.

Eftir ríkisstjórnarfund föstudaginn 6. október voru fréttahaukar ríkisútvarpsins enn á ferð vegna þessa máls og ræddu við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem sagði að Áslaug Arna hefði rætt við sig um orð sín á sjávarútvegsdeginum. Við ráðherrann sagði forsætisráðherra að mikilvægt væri fyrir stjórnmálamenn sem vildu vera forystufólk í stjórnmálum og vildu láta taka sig alvarlega að vanda ummæli um samstarfsmenn sína. „Það sé gert af ábyrgð og virðingu,“ sagði forsætisráðherra réttilega. Sér þættu ummæli Áslaugar Örnu eða framsetning á þeim í fréttum „alls ekki viðeigandi“.

Áslaug Arna sagði að orð sín hefðu verið sett í annað samhengi en hún ætlaði og henni þætti það leitt. Hún hefði rætt við Svandísi og skildi vel að hún væri ósátt „eins og fólk sér þennan bút“ sem birtist í fréttum, vonandi myndi fólk horfa á alla ræðuna „til að setja þetta í samhengi“.

Ofangreint bendir til þess að fyrir fréttamönnum ríkisútvarpsins hafi vakað að gera sér sem mestan mat úr þessu uppistandi Áslaugar Örnu og nota það til að stofna til vandræða milli stjórnarflokkanna.

Skrifstofa VG sendir í hverri viku frá sér svonefndan föstudagspóst þar sagði 6. október að í fréttum RÚV hefði verið rætt um „ólgu innan VG“ vegna ummæla Áslaugar Örnu. Þá segir: „Þessar fréttir komu okkur á skrifstofunni frekar mikið á óvart, því ekki urðum við vör við mikla ólgu ... og engin símtöl fengum við frá félögum vegna þessa.“ Gagnrýnendum hefðu þótt ummælin „sérstök“.

Hverjir skyldu hafa verið heimildarmenn fréttamanna ríkisútvarpsins sem fullyrtu að ummælin hefðu fallið í grýttan jarðveg innan VG „svo vægt sé til orða tekið“ og einnig að VG-liðar hugsi „Áslaugu Örnu þegjandi þörfina“?

Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem fréttastofa ríkisútvarpsins grefur undan eigin trúverðugleika með því að fara offari vegna sjávarútvegsmála.