27.9.2017 10:11

Upphlaupsmál í þinglok

Alþingi lauk störfum í nótt með því að samþykkja lagabreytingar sem rekja má til upphlaupsmála undangenginna vikna.

Alþingi lauk störfum í nótt með því að samþykkja lagabreytingar sem rekja má til upphlaupsmála undangenginna vikna. Í fyrsta lagi var ákveðið að afmá ákvæði um uppreist æru úr lögum. Í öðru lagi var ákveðið að breyta útlendingalögum í þágu ákveðins hóps barna.

Um fyrra málið má segja að umræðurnar um uppreist æru hafa leitt í ljós að uppnámið sem varð er í raun út af engu. Það var unnt að veita uppreist æru án þess að einhverjir einstaklingar sendu dómsmálaráðuneytinu bréf um þann sem sótti þennan rétt sinn. Bréfin voru einskonar varnagli af hálfu embættismanna og áttu uppruna sinn á tíma sem er löngu liðinn þegar ekki var unnt að slá upp nafni viðkomandi í tölvu og fá allar og nákvæmari upplýsingar um hann og hegðun hans en kunningjar eða samstarfsmenn hafa á takteinum.

Nú er spurning hvernig löggjafinn ætlar að búa um hnúta eigi að svipta menn ákveðnum borgararéttindum þótt þeir hafi tekið út refsingu sína. Um það snýst þetta mál. Enginn getur endurreist æru sína nema viðkomandi einstaklingur. Hugtakið „uppreist æru“ er lögfræðilegt um kröfu til borgararéttinda.

Images-3

Æru sinnar verða menn sjálfir að gæta en þeir geta leitað til dómstóla telji þeir að henni vegið. Ríkisútvarpið ákvað á dögunum að semja um 2,5 m.kr. greiðslu til einstaklings sem taldi vegið að æru sinni í fréttum þess. Treysti stofnunin sér ekki til að verjast í réttarsal og kaus frekar að greiða bætur vegna ærumeiðingarinnar á grundvelli sáttar.

Síðara málið getur dregið dilk á sér, meðal annars ýtt undir mansal að mati Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra sem hefur haldið vel á þessum tveimur málum.

Viðvörun dómsmálaráðherra er ekki gefin af ástæðulausu. Hvarvetna í Evrópu herða menn löggjöf sína og aðgerðir gegn þeim sem koma ólöglega til landa þeirra. Evrópulögreglan, Europol, segir að öflugir hringir smyglara séu að baki um 90% þeirra sem koma ólöglega til Evrópu.

Með því að veita tveimur albönskum fjölskyldum ríkisborgararétt um árið þvert á ákvörðun útlendingastofnunar opnaði alþingi leið fyrir straum fólks til landsins sem stenst ekki reglur um hælisvernd flóttamanna. Meirihluti þingmanna hefur núna opnað óljósa glufu á útlendingalöggjöfinni án þess að huga að afleiðingunum á viðunandi hátt.

Nýja lagaákvæðið eykur enn á sérstöðu Íslands við það að lögfræðingur Rauða kross Íslands túlkar breytinguna sem alþingi gerði í nótt á þann veg að ákvæðið eitt eigi ekki að ráða heldur einnig ákvæði í greinargerð með frumvarpinu. Lögin bæti hag fleiri hælisumsækjenda en barna.

Þessi hártogun lögfræðingsins sýnir enn brýnni nauðsyn þess að útlendingamálin séu rædd ítarlega í aðdraganda kosninganna. Kjósendur verða að vita hver er stefna flokkanna í þessum efnum. Ætla þeir að virða stjórnsýsluframkvæmd innan marka gildandi laga eða rjúka upp til handa og fóta þegar lögfræðingum tekst að búa mál hælisleitenda í fjölmiðlabúning?