4.9.2019 11:15

Uppgjör vegna orkupakka

Einhverjir kunna að óska að Íslendingar eða Sjálfstæðisflokkurinn stæðu í brexit-sporum Breta og Íhaldsflokksins vegna illdeilna um orkupakkann.

Fyrir nokkrum árum sat ég sem ráðherra fyrir svörum hjá Sigmundi Erni á Stöð2. Hann spurði mig um Sjálfstæðisflokkinn og Evrópusambandið og ég sagðist óttast að deilur um aðild að sambandinu leiddu til klofnings í flokknum. Einhverjar umræður urðu um þessi orð í fjölmiðlum en eins og svo margt annað hurfu þau á tiltölulega skömmum tíma í gleymskunnar dá.

Nokkrum árum síðar var Viðreisn stofnuð af þeim sem vilja að Ísland gangi í ESB. Að meginstofni eru félagar í Viðreisn fyrrverandi flokksfélagar okkar sjálfstæðismanna. Þar eru til dæmis bæði fyrrverandi formaður og fyrrverandi varaformaður flokksins. Að þetta fólk velji sér þann sess að sitja við hlið Samfylkingarinnar sem ESB-flokkur í stað þess að taka þátt í starfi innan Sjálfstæðisflokksins hefur að sjálfsögðu breytt umræðum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um ESB- og EES-málefni.

Boris-downing-portalBoris Johnson reynir nú að leiða Breta út úr brexit-vandanum. Þingmenn sem vilja ekki úr ESB segjast hafa tekið völdin af ríkisstjórn sem segist vilja fara að vilja kjósenda og út úr ESB.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars 2009 náðist málamiðlun innan flokksins um að ekki yrði gengið til ESB-aðildarviðræðna í nafni flokksins nema fengist hefði umboð til þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillaga í þá veru var felld á alþingi í júlí 2009 á alþingi.

Aðildarbröltið varð að engu árið 2013 og árið 2015 varð aðildarumsóknin að engu. Vegna ágreinings um það hvernig staðið var að afturköllun umsóknarinnar stofnuðu ESB-aðildarsinnar innan Sjálfstæðisflokksins nýjan flokk Viðreisn í maí 2016. Flokkurinn er nú í sömu sporum og Sjálfstæðisflokkurinn sumarið 2009: ESB-aðildarumsókn verður ekki virk nema það sé samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað gegn ESB-aðild og einnig sérstaklega gegn framsali á ráðum yfir auðlindum til ESB. Sú samþykkt frá landsfundi flokksins 2018 var illilega afbökuð í deilunum um þriðja orkupakkann. Í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins, segir í dag, 4. september, að stærstu sigurvegarar í orkupakkamálinu séu líklega Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og yngra frjálslyndara forystufólk í flokknum. Þá segir:

„Forystan [í Sjálfstæðisflokknum] ætti að láta Miðflokkinn í Sjálfstæðisflokknum lönd og leið. Sagan af Orkupakkamálinu er nefnilega um leið saga af umræðu þar sem skynsemisraddirnar sigruðu að lokum. Óskandi er að þetta séu fyrirheit um það sem koma skal og að okkur takist að forðast okkar eigin Trump, eða Brexit.“

Davíð Stefánsson, ritstjóri Fréttablaðsins, túlkar niðurstöðu orkupakkamálsins á þennan veg í leiðara í dag:

„Ljóst er að atlagan að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið tókst ekki. Ef eitthvað hefur stuðningur aukist við samninginn. Hann hefur verið dreginn fram í stjórnmálaumræðunni sem einn helsti hornsteinn velmegunar íslensku þjóðarinnar.“

Þarna er lýst hvað var í húfi í orkupakkadeilunni. Einhverjir kunna að óska að Íslendingar eða Sjálfstæðisflokkurinn stæðu í brexit-sporum Breta og Íhaldsflokksins vegna illdeilna um orkupakkann. Þeir sem þannig tala bera hvorki hag þjóðar né flokks fyrir brjósti.