Uppgjör Ólafs Ragars
Í sögulegu ljósi má segja að Ólafur Ragnar hafi sýnt einveldistilburði sem forseti og val á eftirmönnum hans bendi til að það sé ekki kjósendum að skapi.
Hér var sú skoðun viðruð á dögunum hvort fjölmiðlun á Íslandi kynni að standa betur núna ef fjölmiðlalögin frá 2004 hefðu náð fram að ganga. Það er ekki unnt að kenna tækniþróun um hvernig staðan er á fjölmiðlamarkaði hér þegar aðeins eitt dagblað kemur út og ríkisfjölmiðillinn gnæfir næsta aðhaldslaus yfir öllu í áskrift hjá skattgreiðendum fyrir allt að sjö milljarða á ári.
Blaðamennsku hefur einnig hnignað eins og birtist meðal annars í byrlunar- og símastuldarmálinu sem hefur haft neikvæð áhrif á mörgum sviðum.
Ólafur Ragnar Grímsson sat á Bessastöðum vorið 2004 þegar deilan um fjölmiðlalögin stóð og tók afstöðu með þeim sem vildu ekki dreifða eignaraðild að fjölmiðlum. Hann var staddur erlendis og fékk neyðarkall frá Baugsmönnum sem áttu Fréttablaðið auk annarra miðla sem þeir notuðu meðal annars til að hvetja til andstöðu við lögin.
Boðað er að í dag komi út bók sem geymir dagbókarfærslur Ólafs Ragnars frá því að deilt var um fjölmiðlalögin. Af því sem birt hefur verið má ráða að forsetinn hafi vart hamið reiði sína í garð Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á þessum tíma.
Ef marka má frásagnir af bókinni vill Ólafur Ragnar skýra og segja sína hlið að baki ákvörðun hans um að beita 26. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að bregða fæti fyrir framgang laga. Hann er eini forsetinn sem hefur gripið til þessa ráðs. Guðni Th. Jóhannesson, arftaki Ólafs Ragnars, lét aldrei á þann veg að líklegt þætti að hann gripi þannig fram fyrir hendur alþingis. Ólíklegt er að Halla Tómasdóttir geri það.
Í sögulegu ljósi má segja að Ólafur Ragnar hafi sýnt einveldistilburði sem forseti og val á eftirmönnum hans bendi til að það sé ekki kjósendum að skapi.
Orðin sem Ólafur Ragnar notar í dagbók sinni til að skeyta skapi sínu á Davíð Oddssyni benda til þess að hann hafi stundum skort hugarró þegar þau voru skráð. Hann segir að sér hafi liðið „nánast eins og í þriðja heims landi þar sem valdið og ógnin ráða öllu, lán að hann [Davíð] hefur ekki her eða leynilögreglu til að beita. Hugsar og hegðar sér eins og fasisti, valdið réttlætir allt“.
Hafi ástandið verið svona er einkennilegt að Ólafur Ragnar skyldi þegja yfir því á sínum tíma og ekki láta þjóðina vita hvernig málum væri háttað. Kannski talaði forsetinn um þetta við nána trúnaðarmenn. Áður en slagurinn hófst sagði forsetaritari við hann þegar þeir voru saman í New York að fjölmiðlafrumvarpið myndi enda hjá forsetanum og það væri ef til vill „plott“ Davíðs til að eyðileggja Ólaf Ragnar „þá tók ég ekki undir það,“ segir hann í dagbókinni og má skilja orðin á þann veg að hann hafi síðar skipt um skoðun.
Hér skal ekki lagður neinn dómur á þessa nýju bók Ólafs Ragnars enda verður það ekki gert nema hún sé lesin í heild. Upphrópanirnar sem nú hafa birst endurspegla mikinn hugaræsing á Bessastöðum og það voru greinilega ekki bylgjur samtals og sátta sem þaðan bárust þá. Forsetinn var virkjaður af peningaöflum og hann virkjaði þá í fjölmiðla-, fræða- og stjórnmálaheiminum sem hann taldi tala máli sínu.
Þetta voru svo sannarlega óvenjulegir tímar.