6.4.2018 9:50

Uppgjör innan smáflokka

Smáflokkar sem ná ekki að skapa skipulag sem gerir þeim kleift að skipta um fólk í brúnni án þess að allt fari á annan endann lifa sjaldan lengi.

Uppgjör fer nú fram innan smáflokkanna í landinu. Líklega átti að álykta að Björt framtíð sem hlaut 2.394 atkvæði í þingkosningunum í lok október 2017 yrði að engu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Vissulega stefnir í þá átt því að enginn virðist standa við merki flokksins lengur nema Björt Ólafsdóttir formaður.

Björt framtíð fékk engan þingmann kosinn. Flokkurinn á þingi með fæsta kjósendur að baki sér er Viðreisn, hún fékk 13.122 atkvæði. Fylgi flokksins er nær eingöngu að finna á höfuðborgarsvæðinu. Innan hans endurspeglast skýr viðhorfsskil milli suð-vesturshornsins og annarra landshluta. Formanni flokksins var ýtt til hliðar fyrir kosningar og þar með hrundi hann endanlega á landsbyggðinni.

Næst minnsti flokkurinn á þingi er Flokkur fólksins með 13.502 atkvæði. Hann skírskotar til aðeins breiðara fylgis en Viðreisn sé tekið mið af landafræðinni.

Píratar eru þriðji minnsti flokkurinn á þingi með 18.053 atkvæði. Þegar atkvæði þessara þriggja fámennu flokka hafa verið nefnd er rétt að minna á að stærsti flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, fékk 49.548 atkvæði. Hann á fyrsta þingmann í öllum kjördæmum. Vinstrihreyfingin-grænt framboð (VG) fékk 33.156 atkvæði, Samfylkingin 23.654, Miðflokkurinn 21.337 og Framsóknarflokkurinn 21.017. Fimm flokkar fengu þannig meira en 20.000 atkvæði og Miðflokkurinn ívið fleiri atkvæði en Framsóknarflokkurinn.

Af áróðrinum sem rekinn er eftir kosningar er augljóst að Samfylking og Píratar telja sig geta styrkt stöðu sína með því að ná atkvæðum af VG. Talsmenn þessara flokka leggja sig fram um að gera sem minnst úr VG og skapa flokknum sem mestan vanda, eins og með vantrauststillögunni á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra sem hafði þann megintilgang að skapa sundrung innan VG – það heppnaðist og síðan hafa átökin milli vinstri flokkanna færst í aukana.

Birgitta Jónsdóttir og flokksmerki Pírata, myndin birtist á nutiminn.is

Uppgjör fer hins vegar enn einu sinni fram innan raða Pírata. Birgitta Jónsdóttir tók þátt í að stofna flokkinn á sínum tíma þegar Hreyfingin vildi ekki leyfa henni að fara á sínum vegum á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Taldi Birgitta þá best að berjast gegn spillingu í nýjum flokki. Nú segir hún skilið við Pírata af því að aldrei er leitað ráða hjá henni og einnig af þessari ástæðu: „Mér var boðið heiðurssæti á lista en svo var allt í einu hætt við það því það gæti haft vond áhrif á Sjálfstæðisflokkinn. Ég bara nenni þessu ekki,“ segir hún á vefsíðunni Stundinni fimmtudaginn 5. apríl og einnig: „Auðvitað er ég hundfúl yfir því að mér finnst þingflokkurinn ekki hafa gert neitt til að nýta sér mína þekkingu og reynslu.“ Þá finnst henni Píratar orðnir samdauna valdakerfinu. Má draga þá ályktun að milli hennar og Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, séu litlir kærleikar. Á sínum tíma var vinnustaðasálfræðingur kallaður á vettvang til að taka á því sem Helgi Hrafn lýsti sem „ofbeldissambandi“ á meðan þau Birgitta voru saman í þingflokki.

Miðað við fálætið sem Birgitta lýsir í sinn garð frá þingflokki Pírata ætti það ekki að breyta neinu fyrir störf þingmanna flokksins að Birgitta segi skilið við hann. Það minnir hins vegar á að smáflokkar sem ná ekki að skapa skipulag sem gerir þeim kleift að skipta um fólk í brúnni án þess að allt fari á annan endann lifa sjaldan lengi.

Flokkur fólksins varð til í kringum Ingu Sæland og Miðflokkurinn í kringum Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Skyldu flokkarnir lifa út kjörtímabilið?