28.1.2023 11:57

Uppgjöf kvótaandstæðings

Undir lokin er niðurstaða Þórðar Snæs að sjónarmið hans hafi einfaldlega orðið undir. Að tíminn til að laga kvótkerfið að hans höfði sé liðinn,

Alkunn er sagan um að stórfyrirtæki í sjávarútvegi gíni ekki aðeins yfir öllu í íslensku samfélagi heldur stundi einnig ámælisverða spillingarstarfsemi erlendis, nýjasta dæmið um það sé að finna í Namibíu.

Svo að vikið sé að Namibíu fyrst skýrist æ betur að þar er um innlent pólitískt spillingarmál að ræða. Jóhannes Stefánsson uppljóstrari um hvernig kaupin gerðust á eyrinni í Namibíu var starfsmaður Samherja á sinni tíð. Jóhannes tók höndum saman við fréttamenn ríkisútvarpsins og málið var blásið upp hér og í Namibíu skömmu fyrir þingkosningar þar í nóvember 2019. Síðan hefur fjarað undan öllum ásökunum í garð Samherja, fyrirtækið má frekar kenna við leiksopp í málinu en aðila þess. Fishrot hneykslið lifir hins vegar góðu lífi í réttar- og stjórnmálakerfi Namibíu.

Í þau 40 ár sem liðin eru frá því að kvótakerfið var innleitt hefur Sjálfstæðisflokkurinn við framkvæmd þess stuðlað að stöðugleika með raunsæjum úrlausnum en varað við uppbroti og kollsteypum. Fyrirtæki eins og þjóðfélagið í heild þarf slíkt andrúmsloft og umhverfi til að dafna. Verkfallsbröltið í Sólveigu Önnu Jónsdóttur minnir nú rækilega á tjónið sem einstefnu öfgamenn geta valdið.

1089169Hreina vinstri stjórnin undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttir hafði það meðal annars að markmiði að setja Sjálfstæðisflokkinn til hliðar. Það misheppnaðist eins og að bylta stjórnarskránni eða koma Íslandi í ESB. Þá vildi Jóhanna kollvarpa kvótakerfinu.

Þórður Snær Júlíusson, annar ritstjóra vefsíðunnar Heimildarinnar, birtir þar grein í dag (28. janúar) og lýsir uppgjöf andstæðinga kvótakerfisins. Hann segir „stóra tækifærið“ til að „leiðrétta óréttlæti“ kvótakerfisins hafa verið þegar Samfylking og Vinstri græn voru við völd eftir bankahrunið, frá 2009 til 2013. Pólitískt skipuð sáttanefnd hafi hins vegar ákveðið að nýta þetta tækifæri ekki.

Nú sé „fáveldið í sjávarútvegi ... alltumlykjandi“. Á fyrsta kjörtímabili sínu hafi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ekkert gert „til að takast á við þessi mál“. Hún hafi aðeins gert illt verra „með því að lögfesta gjaldfrjálsa útdeilingu á makrílkvóta árið 2019“.

Þórður Snær kveinkar sér og segir kvótastefnu Sjálfstæðisflokksins gilda áður en hann víkur að niðurstöðu starfshópa á vegum matvælaráðherra Svandísar Svavarsdóttur (VG) sem séu „gamalt vín á nýjum belgjum. Allt er þetta útþynnt og loðið, og virðist til þess fallið að mynda sátt á forsendum lobbíista útgerðarinnar, ekki þjóðarinnar“.

Undir lokin er niðurstaða Þórðar Snæs að sjónarmið hans hafi einfaldlega orðið undir. Að tíminn til að laga kvótkerfið að hans höfði sé liðinn, „Skortur á pólitískum vilja og getu til að gera það er um að kenna. Við erum of sein til að grípa inn í,“ segir ritstjórinn.

Sé Þórður Snær hugmyndafræðilegur greinandi og ráðgjafi andstæðinga kvótakerfisins er uppgjöf hans tímanna tákn um það sem nú gerist stig af stigi hjá þeim sem skipa sér með Samfylkingunni. Hún hverfur úr skotgröfum Jóhönnu Sigurðardóttur frá stríðinu 2009 til 2013 og velur sé nýjan vígvöll.