Uppfærsla öryggis- og varnarmála
Þessir reynslumiklu lögreglumenn gera sér ljósa grein fyrir muninum á borgaralegum stofnunum sem sinna öryggismálum annars vegar og hlutverki herja hins vegar.
Utanríkisráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gaf alþingi munnlega skýrslu um öryggi og varnir Íslands fimmtudaginn 20. febrúar. Fulltrúar allra þingflokka tóku þátt í umræðunum og var víðtæk samstaða um grunnþætti stefnunnar í varnar- og öryggismálum, þar yrði áfram lög rækt við aðildina að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin.
Tveir nýir þingmenn sem báðir gegndu stöðum yfirlögregluþjóna tóku til máls í umræðum.
Grímur Grímsson starfaði tæp 40 ár í lögreglunni og var í nokkur ár tengslafulltrúi Íslands hjá Europol í Haag en síðan yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu áður en hann bauð sig fram til þings fyrir Viðreisn haustið 2024.
Víðir Reynisson varð eftir farsælan feril sem lögreglumaður yfirlögregluþjónn almannavarnarsviðs hjá ríkislögreglustjóra. Hann bauð sig fram fyrir Samfylkinguna í þingkosningunum 2024.
Varðskipið Þór.
Í ræðu sinni um öryggi og varnir Íslands sagði Grímur að við yrðum sem herlaus þjóð að huga vel að varnar- og öryggismálum. Taldi hann nauðsynlegt að „skilgreina hlutverk lögreglu og landhelgisgæslu á ófriðartímum enn betur en nú er.“ Hann sagði að þessar borgaralegu stofnanir yrðu „vegna okkar aðstæðna að sinna að einhverju marki verkefnum sem í öðrum ríkjum væri sinnt af her“.
Víðir sagði að í herlausu landi væri „samstarf borgaralegra stofnana okkar á vettvangi varnar- og öryggismála grunnurinn að okkar eigin undirbúningi“. Þar yrðum við að efla okkur enn frekar og gera allt sem við gætum til að standa okkar vakt á þeim vettvangi. Þá hvatti hann til þess að haldið yrði áfram öflugri uppbyggingu almannavarna og samstarfi allra viðbragðsaðila. Annars staðar værum við „öfunduð af getu okkar til að bregðast við krísum“. Efla ætti þátttöku í alþjóðlegu almannavarnasamstarfi.
Þessir reynslumiklu lögreglumenn gera sér ljósa grein fyrir muninum á borgaralegum stofnunum sem sinna öryggismálum annars vegar og hlutverki herja hins vegar. Það er rétt hjá Grími Grímssyni að skerpa þurfi ákvæði laga um hlutverk lögreglu og landhelgisgæslu á ófriðartímum. Dómsmálaráðherra á að beita sér fyrir uppfærslu laga um stofnanir undir sínu ráðuneyti.
Í ræðu sinni komst Þorgerður Katrín svo að orði að síðast en ekki síst þyrfti að draga fram og varpa ljósi á nauðsynlega varnarviðbúnaðargetu innan lands „og rýna fordómalaust í laga- og stofnanaumgjörð öryggis- og varnarmála“. Það væri til dæmis verið „að styrkja netöryggis- og netvarnarþáttinn með því að færa netöryggisteymi stjórnvalda CERT-IS inn í utanríkisráðuneytið og landhelgisgæslu að varnarmálum“.
Óljóst er hvað í þessum orðum felst. Varla stendur til að færa viðbúnaðarsveit vegna netöryggis inn í utanríkisráðuneytið? Það yrði nýmæli um borgaralega eftirlitsstofnun. Hvað knýr á um slíka gjörbreytingu í stjórnkerfinu?
Landhelgisgæslan er borgaraleg löggæslustofnun. Varnarmál eru hermál, þeim er sinnt af hernaðarlegum stofnunum. Hvað felst í orðunum að færa landhelgisgæslu að varnarmálum?