Uppfærður samgöngusáttmáli
Hvað sem líður slíkum sáttmála er það skylda allra sem að honum koma að vinna að greiðum og öruggum samgöngum þar sem stærstur hluti landsmanna býr.
Upphaflega var skrifað undir svonefndan samgöngusáttmála 26. september 2019. Þar er um að ræða samkomulag sem ríkið og Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, gerðu um uppbyggingu samgönguinnviða sinna. Sáttmálinn tekur mið af svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015 – 2040, aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og landsskipulagsstefnu 2015 – 2026. Markmið hans er að stuðla sameiginlega að úrbótum í samgöngumálum með hagkvæmni og skilvirkni að leiðarljósi.
Hvað sem líður slíkum sáttmála er það skylda allra sem að honum koma að vinna að greiðum og öruggum samgöngum þar sem stærstur hluti landsmanna býr. Að gagnrýna að þessar skyldur kosti stórfé og að þær séu axlaðar sameiginlega með sáttmála verður marklaust nema bent sé á skynsamlegri leið.
Opinbera hlutafélagið Betri samgöngur (BS) var stofnað 2. október 2020 með lögum til að bera ábyrgð á og hafa á hendi stjórnun verkefnasafns samkvæmt sáttmálanum og annast innleiðingu hans. BS gerir samning við vegagerðina um framkvæmd einstakra verkefna. Hér hefur verið varað við opinberum hlutafélögum vegna leyndarhjúpsins sem stjórnendur þeirra kjósa jafnan að sveipa sig.
Samgöngusáttmálinn var uppfærður við hátíðlega athöfn aðstandenda hans miðvikudaginn 21. ágúst 2024. Í opinberri tilkynningu segir að styttri ferðatími, minni tafir, aukið umferðaröryggi, áhersla á að draga úr kolefnisspori, stórbættar almenningssamgöngur, fjölgun hjóla- og göngustíga og uppbygging stofnvega séu kjarninn í uppfærðum texta. Með uppfærslunni er gildistími samningsins lengdur um sjö ár frá 2033 til 2040 en kostnaður við framkvæmd hans verður 311 milljarðar kr. eða tæplega tvöfalt hærri en sagði í upphaflegum sáttmála.
Þeir sem telja þessa tölu of háa verða að fara í saumana á einstökum framkvæmdum og benda á hagkvæmari úrlausnir. Í því efni hefur sérstaklega verið bent á svonefnda borgarlínu sem meirihluti borgarstjórnar hefur kynnt á hástemmdan hátt við dræmar undirtektir. Staðreynd er að þessi meirihluti hefur spillt mjög fyrir öllu sem varðar ákvarðanir í samgöngumálum með aðgerðarleysi eða sérviskulegri andúð á fjölskyldubílnum.
Miklubraut í jarðgöngum með römpum á Kringlumýrarbraut við Bústaðaveg (jarðgöng 2d). Bláar línur tákna akreinar neðanjarðar og rauðar línur umferðarmannvirki ofanjarðar. Fylgiskjal með uppfærðum samgöngusáttmála.
Í uppfærðum samgöngusáttmála hefur hugmynd Dags B. Eggertssonar og kosningaloforði Samfylkingarinnar um Miklubrautina í stokk verið ýtt til hliðar.
Niðurstaðan er að ákjósanlegra sé að leggja Miklubraut í jarðgöng en í stokk. Af þessu sést að með gerð samgöngusáttmálans og ákvörðunum um framkvæmdir undir merkjum hans er unnt að leita bestu lausna í stað vanhugsaðra kosningaloforða.
Við uppfærslu sáttmálans var mælt með því að færa verkefnastofu borgarlínu og hjóla- og göngustíga sáttmálans og verkefnastjórn og hönnun á undirbúningsstigi, undirbúning skipulagsbreytinga, áætlanagerð, ritun útboðsgagna, framkvæmdir og eftirlit til opinbera hlutafélagsins Betri samgangna. Það verður vonandi til þess að úrvinnslan verði jarðbundnari en loftkastalasmíði meirihlutans í Reykjavík.