17.2.2025 12:20

Uppbrotið í München

Það þarf tíma til að melta og bregðast við stórtíðindum af þessu tagi. Fórni Trump-stjórnin Úkraínu og bandamönnum sínum í Evrópu en flaðri þess í stað upp um Pútin og Lavrov. 

Sætið við borðið þegar fjallað er um brýna þjóðarhagsmuni og öryggismál skiptir miklu. Þetta sannast vel nú eftir öryggisráðstefnuna í München sem haldin var um helgina. Þar skýrðist að ekki væri alveg á hreinu hvort Evrópuríki ættu sæti við borðið kæmi til friðarviðræðna með þátttöku Bandaríkjamanna um Úkraínu. Það væri jafnvel spurning um aðild Úkraínustjórnar að viðræðunum!

Þessi afstaða ráðherra Trump-stjórnarinnar að láta eins og þeir ráði því hverjir komi að friðargerð í Úkraínu er ótrúlegt feilspark. Bandaríski utanríkisráðherrann Marco Rubio ráðgaðist um það við Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands í síma laugardaginn 15. febrúar.

Frá München hélt Rubio um Ísrael til Sádí-Arabíu þar sem hann ætlar að hitta Lavrov þriðjudaginn 18. febrúar. Gaf Rubio til kynna að á síðari stigum fengju aðrir sæti við borðið. Lavrov sagðist ekki skilja hvaða erindi fulltrúar Evrópuríkja ættu að þessu viðræðuborði.

Vegna þessa alls og til að árétta sjónarmið Evrópuríkja kallaði Emmanuel Macron Frakklandsforseti leiðtoga Bretlands, Þýskalands, Ítalíu, Póllands, Spánar, Hollands og Danmerkur ásamt framkvæmdastjóra NATO og forseta framkvæmdastjórnar ESB til skyndifundar í París í dag (17. febrúar).

Screenshot-2025-02-17-at-12.18.13Christoph Heusgem stjórnarformaður München-ráðstefnunnar brast í grát.

Tilfinningahitinn var svo mikill á fundunum í München að reyndi þýski diplómatinn, Christoph Heusgen, stjórnarformaður ráðstefnunnar, brast í grát og gat ekki lokið ræðu sinni í ráðstefnulok.

Heusgen hafði flutt áheyrendum meginhluta ræðu sinnar þegar hann minnti á að þessi mikla öryggisráðstefna hefði í upphafi haft þann tilgang að stilla saman strengi ríkjanna beggja vegna Atlantshafs. Nú væri staðan ekki lengur sú.

„Eftir ræðu Vance varaforseta á föstudaginn er ástæða til að óttast að það eigi ekki lengur við að tala um sameiginlegt gildismat okkar.“

Við svo búið brast sendiherrann í grát og yfirgaf sviðið. Fyrir fundinn var ljóst að Jens Stoltenberg myndi taka við stjórnarformennskunni. Hann sagði eftir ráðstefnuna að ástæða væri til að óttast um sjálfstæði Úkraínu semdu Bandaríkjamenn fríhendis við Rússa.

Það þarf tíma til að melta og bregðast við stórtíðindum af þessu tagi. Fórni Trump-stjórnin Úkraínu og bandamönnum sínum í Evrópu en flaðri þess í stað upp um Pútin og Lavrov af því að það styrki stöðu hennar andspænis Kínverjum er ekki aðeins illa komið fyrir friðarkerfinu í okkar heimshluta heldur einnig og sérstaklega Bandaríkjunum sjálfum.

Nú segja menn að Bandaríkjastjórn hafi snúið baki við stefnunni sem mótuð var 1941 þegar aðstoð þeirra við Evrópuþjóðir í stríðinu við nazista hófst. Fyrsta skrefið var stigið hér í júlí 1941 með herverndarsamningnum þegar samið var um að bandarískt herlið tæki að sér varnir Íslands í stað breska hernámsliðsins.

Nú vill Bandaríkjastjórn halda herafla sínum frá Úkraínu og helst Evrópu en Sir Keir Starmer, forsætisráðherra Breta, segist munu senda breska hermenn til að tryggja sjálfstæði Úkraínu.